Indriði Aðalsteinsson
Indriði Aðalsteinsson
Eftir Indriða Aðalsteinsson: "Sjálfstæðisflokkurinn er hagsmunabandalag einkarekstrar og sérhagsmuna og í stað þess að hann þjóni þjóðinni er þjóðinni ætlað að þjóna flokknum."

Nú er það svart hjá Bjarna Ben.

bágt er að álpast í svona fen,

Vafningar fleiri um hálsinn hans

heldur en nokkurs annars manns.

Sem barn og unglingur fylgdi ég Sjálfstæðisflokknum að málum enda langflottasta og fyrirferðarmesta nafnið í pólitíkinni og fálkatáknið hans glæsilegt. Jóhann afi kaus Sigurð frá Vigur og fékk frá honum pésa og barmmerki sem gengu í óvitaaugun. Hólmfríður móðir mín var aftur dóttir Indriða á Fjalli, eins af stofnendum Framsóknarflokksins, og hér gisti stundum Hermann Jónasson og Síðar Steingrímur sonur hans á sínum yfirreiðum. Henni leist því ekkert á villutrú frumburðar síns, dró mig á einmæli og brýndi fyrir mér að horfa í þessum efnum frekar til innihalds en umbúða. Með aldri og þroska fór ég að grilla í það sem bjó á bakvið fagurgalann og skrautlegu leiktjöldin. Því langar mig til að beina fáeinum orðum til þess stóra hóps heiðarlegs og góðs fólks sem gert hefur Sjálfstæðisflokkinn að pólitískri leiðarstjörnu lífs síns. Vegna reglna Morgunblaðsins um lengd greina verð ég bæði að fara fljótt yfir sögu og tvískipta máli mínu.

SíAuðvaldið

Ef farið er yfir sögu Sjálfstæðisflokksins frá lýðveldisstofnun og fram til 1990 kemur hann mér fyrst og fremst fyrir sjónir sem hagsmunabandalag einkarekstrar og sérhagsmuna. Í stað þess að flokkurinn þjónaði þjóðinni var þjóðinni ætlað að þjóna flokknum. Í því skyni lágu griparmar kolkrabbans um allt samfélagið og sugu til sín næringu. Sjálfstæðisflokkurinn var hinn hefðbundni ríkisstjórnarhandhafi og sat sem límdur við þá kjötkatla. Flokkurinn var líka í aðalhlutverki í hermanginu, átti sinn kvóta í forystusveit bænda og réði nokkrum verkalýðsfélögum, meðal annars því fjölmennasta, VR. Hann tók kvótakerfinu fagnandi, 1983, og einnig framsalinu 1990 þrátt fyrir viðblasandi misrétti, auðlindaþjófnað, sægreifaveldi, byggðaröskun og það eignahrun sem því fylgdi. Frægust er svo stöðuveitingamisnotkunin í dómskerfinu en þar náðu engir verulegum vegtyllum nema vera innvígðir og innmúraðir sjálfstæðismenn. Aðeins forsetaembættið eitt stóð af sér íhaldsatlögurnar. Flokksfólki var síðan umbunað á margvíslegan máta, svo sem í gegnum atvinnurekendur, lánastofnanir, ríkisvald og sveitarfélög og svo traust var hagsmunagæslan að varla var skipaður hundahreinsunarmaður í afdölum að ekki þyrfti þar stimpil frá Valhöll. Fáir orðuðu spillingu í þessu helsjúka þjóðfélagi, helst Vilmundur Gylfason og hann rak sig hvarvetna á veggi.

Þeirra eigin orð

Nú er við því að búast að lesendur telji mig ekki trúverðugt vitni. En þá er að seilast í ævisögu Gunnars Thoroddsen þar sem fram kemur að hjá Reykjavíkurborg komst enginn í starf eða stöðu án rétts pólitísks litarháttar. Skoðananjósnarar voru í hverri götu, fjölbýlishúsi og vinnustað, íþróttafélög voru virkjuð í þágu flokkshagsmuna og atvinnurekendur voru skattskyldir til flokksins. Atvinnukúgunar- og skoðananjósnakerfið var svo fullkomið að Stasí í Austur-Þýskalandi hefði varla nálgast með tánum þar sem íhaldið í Reykjavík hafði hælana. Bragi fornbóksali og Kiljudjásn sem lýsir sjálfum sér í Morgunblaðinu 2006 sem „grenjandi bláu íhaldi“ kallar sína menn „leppmenni peningaaflanna“ og greinir Sjálfstæðisflokkinn sem „ósjálfstætt hagsmunabandalag með persónulega hyglunaráráttu valdamanna og -kvenna og þetta litla ættartengsla- og vinasamfélag virki stundum líkt og maðksmogið af barnalegri spillingu“.

Styrmir Gunnarsson, lengi ritstjóri Morgunblaðsins, gefur síðan lýðveldinu Íslandi, mótuðu af ráðsmennsku Sjálfstæðisflokksins þessa einkunn í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis: „Ég er búinn að fylgjast með þessu í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag. Þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Höfundur er bóndi á Skjaldfönn við Djúp.