Bjarni Jónsson
Bjarni Jónsson
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Þetta var gagnlegur fundur og við væntum þess að hann muni skila árangri,“ segir Bjarni Jónsson, formaður Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Þetta var gagnlegur fundur og við væntum þess að hann muni skila árangri,“ segir Bjarni Jónsson, formaður Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Stjórnin fékk fund með fjórum ráðherrum síðastliðinn þriðjudag en samtökin óskuðu fyrst eftir fundi með forsætisráðherra fyrir nærri fjórum mánuðum.

Stjórn samtakanna sendi Jóhönnu Sigurðardóttur bréf 21. nóvember á síðasta ári og óskaði eftir fundi um aðgerðir í byggða- og atvinnumálum vegna alvarlegrar stöðu byggðarlaganna. Afrit af bréfinu var sent til Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi fjármálaráðherra. Fundur fékkst ekki þrátt fyrir ítrekaðar óskir samtakanna og stuðning sveitarfélaganna við þá kröfu.

Formaður og framkvæmdastjóri SSNV hittu forsætisráðherra í hléi á stórum fundi sem haldinn var á dögunum og þá var ákveðið að boðað yrði til fundar stjórnar samtakanna með ráðherrum fljótlega. Fundurinn var haldinn í forsætisráðuneytinu. Auk Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra sátu hann ráðherrarnir Steingrímur J. Sigfússon, Guðbjartur Hannesson og Ögmundur Jónasson.

„Við mættum vel undirbúin, fórum yfir stöðu landshlutans og ýmsar tillögur sem við höfum til úrbóta,“ segir Bjarni Jónsson. Hann segir að tillögum þeirra hafi verið ágætlega tekið og farið yfir þær á fundinum. „Það er ýmislegt hægt að gera með góðum vilja en litlum tilkostnaði sem getur orðið til að snúa við neikvæðri íbúaþróun. Öðru gæti þurft að vinna meira í,“ segir Bjarni.

Samtökin leggja meðal annars áherslu á að snúið verði frá fækkun opinberra starfa og flutningi verkefna frá landshlutanum. Meðal beinna tillagna var ósk um að stjórnvöld gæfu út yfirlýsingu um að orka Blönduvirkjunar yrði nýtt til atvinnuuppbyggingar á svæðinu og hún styddi við áform heimamanna um uppbyggingu gagnavers sem nyti orku hennar. Þá var óskað eftir góðu samstarfi og fyrirgreiðslu vegna lagningar hitaveitu í Fljótum og Hrútafirði.