Vankunnátta spyrjenda er vandmeðfarin en Heimir og Kolla í Bíti Bylgjunnar standa sig á því sviði sem öðru. Á dögunum ræddu þau við Skarphéðin Ólafsson, grásleppukarl í Grundarfirði, voru gersamlega úti á þekju og fóru ekki leynt með það.

Vankunnátta spyrjenda er vandmeðfarin en Heimir og Kolla í Bíti Bylgjunnar standa sig á því sviði sem öðru. Á dögunum ræddu þau við Skarphéðin Ólafsson, grásleppukarl í Grundarfirði, voru gersamlega úti á þekju og fóru ekki leynt með það. Fyrir bragðið var spjallið hin besta skemmtun.

Eftir að Heimir hafði kynnt viðmælandann til sögunnar spurði Kolla hvers konar fiskur grásleppa væri. „Það er stórt spurt,“ svaraði Skarphéðinn. „Það tók þá nærri heilt ár suður í ráðuneyti að finna út hvað hún væri.“ Hann bætti við að fyrir einu eða tveimur árum hefði verið umræða í ráðuneytinu um hvort grásleppa væri fiskur eða ekki vegna þess að til að hægt væri að reikna í þorskígildum þyrfti að greina kvikindið. Komið hefði í ljós eftir langa yfirlegu að hægt væri að reikna grásleppuna í þorskígildum. Hún væri sem sagt fiskur.

Heimir spurði hvort grásleppa lifði í fjöruborðinu og Kolla sagði að nafnið virkaði óaðlaðandi. Grásleppan liti samt betur út á mynd en nafnið gæfi tilefni til. Heimir sagði að nöfnin væru ruglandi. Ýmist væri talað um grásleppu, rauðmaga eða hrognkelsi en Skarphéðinn leysti úr vandanum sem fyrr. „Hefurðu talað við miklu fáfróðara fólk um þessa hluti en okkur?“ spurði Heimir. „Þú ert að tala við algjöra landkrabba í höfuðborginni.“ „Þið ættuð eiginlega heima í ráðuneytinu,“ svaraði Skarphéðinn.

Heimir spurði hvort fara þyrfti út á sjó til þess að fylgjast með grásleppunni og eftir að þau höfðu rætt um stærð og aldur, ábata og nýtingu, kom fram hjá Skarphéðni að gott væri að fá fjórar til fimm tunnur af hrognum í veiðiferð, um 100 kg af verkuðum hrognum í tunnu. „Við biðjumst afsökunar á fáfræði okkar,“ sagði Kolla og Heimir taldi sig útskrifaðan í fræðunum: „Megið þið veiða sem flestar tunnur af grásleppunni.“ Þá varð Skarphéðni nóg boðið. „Við veiðum ekki tunnurnar.“