MH Kór Menntaskólans við Hamrahlíð heimsækir suðursvæði Vestfjarða.
MH Kór Menntaskólans við Hamrahlíð heimsækir suðursvæði Vestfjarða.
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð heldur nokkra tónleika í Vesturbyggð og á Tálknafirði um og eftir helgina. Er þetta í fyrsta skipti sem kórinn heimsækir suðursvæði Vestfjarða.

Kór Menntaskólans við Hamrahlíð heldur nokkra tónleika í Vesturbyggð og á Tálknafirði um og eftir helgina. Er þetta í fyrsta skipti sem kórinn heimsækir suðursvæði Vestfjarða.

Kórinn heldur tvenna almenna tónleika, syngur við messu og heldur síðan þrenna skólatónleika á mánudag. Endurgjaldslaus aðgangur er að öllum tónleikunum.

Á vorönn er Kór Menntaskólans við Hamrahlíð skipaður 88 nemendum. Stjórnandi er Þorgerður Ingólfsdóttir. Starfandi rektor MH, Sigurborg Matthíasdóttir, er með í för og fararstjóri er Orri Páll Jóhannsson, fulltrúi Reykjavíkurborgar í skólanefnd.

Á efnisskrá kórsins í tónleikaferðinni eru íslensk og erlend tónverk, meðal annars eftir J. S. Bach, E. Grieg, Pál Ísólfsson, Hallgrím Helgason, Jón Þórarinsson, Jón Ásgeirsson, Atla Heimi Sveinsson, Þorkel Sigurbjörnsson og Huga Guðmundsson, auk þjóðlaga frá ýmsum löndum. Efnisskráin er mismunandi á tónleikum.

Almennu tónleikarnir verða í félagsheimilinu Birkimel á Barðaströnd laugardaginn 24. mars kl. 16.30 og í Félagsheimili Patreksfjarðar á sunnudagskvöld kl. 20.