Ruðningur Frá snjómokstri á vegi í Árneshreppi. Íbúar fagna vorinu.
Ruðningur Frá snjómokstri á vegi í Árneshreppi. Íbúar fagna vorinu. — Morgunblaðið/Jón G. Guðjónsson
„Nú er byrjað að moka. Það var reyndar gert í síðustu viku, við fengum því flýtt um eina viku. Svo er búið að moka aftur í þessari viku. Svo bara vona ég að það verði mokstur eftir G-reglunni tvisvar í viku eins og þarf,“ segir Oddný S.

„Nú er byrjað að moka. Það var reyndar gert í síðustu viku, við fengum því flýtt um eina viku. Svo er búið að moka aftur í þessari viku. Svo bara vona ég að það verði mokstur eftir G-reglunni tvisvar í viku eins og þarf,“ segir Oddný S. Þórðardóttir, oddviti Árneshrepps.

Íbúar í hreppnum hafa krafist þess að fá aukna þjónustu frá Vegagerðinni yfir vetrartímann en eins og er býr sveitarfélagið við svokallaða G-reglu um snjómokstur. Samkvæmt henni er engin regluleg þjónusta frá 1. nóvember til 20. mars. Á þriðjudag hófst vortímabil og þá má Vegagerðin moka tvisvar í viku þegar snjólétt er.

„Ef það gerði einhvern rosasnjó núna gætum við ekki treyst því af því að það er alltaf sá fyrirvari að það sé mokað ef það er ekki of mikill snjór,“ segir Oddný.

Hún bendir á að mikilvægt sé að halda veginum opnum því nú sé hafin grásleppuvertíð. Yfirleitt hafi aðeins hrognin verið hirt en fisknum sjálfum hent en nú sé hins vegar skylda að hirða fiskinn líka. Þar sem ekki sé þriggja fasa rafmagn í Árneshreppi sé ekki hægt að vera með frystibúnað þar og því þurfi að aka grásleppunni burt á markað.

„Þá náttúrlega verður bara að halda veginum opnum. Það er spáð hlýnandi veðri svo vonandi er þetta í þá áttina,“ segir hún.