Eftir áhlaupið Sérsveitarmenn frönsku lögreglunnar hverfa af vettvangi eftir að hafa fellt raðmorðingjann Mohamed Merah í Toulouse.
Eftir áhlaupið Sérsveitarmenn frönsku lögreglunnar hverfa af vettvangi eftir að hafa fellt raðmorðingjann Mohamed Merah í Toulouse. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Karl Blöndal kbl@mbl.is Franska lögreglan skaut í gær til bana Mohamed Merah, sem á átta dögum myrti sjö manns, eftir 32 klukkustunda umsátur í borginni Toulouse.

Baksvið

Karl Blöndal

kbl@mbl.is

Franska lögreglan skaut í gær til bana Mohamed Merah, sem á átta dögum myrti sjö manns, eftir 32 klukkustunda umsátur í borginni Toulouse. Þrjú fórnarlambanna voru Frakkar, sem ættir eiga að rekja til Norður-Afríku, og fjögur voru franskir gyðingar, þar af þrjú börn. Morðin hafa skekið Frakkland. Þar búa fjölmennustu minnihlutahópar gyðinga og múslíma í Evrópu.

Lögreglan réðst til atlögu seint í gærmorgun. Merah hafði læst sig inni á klósetti í íbúð sinni. Að sögn lögreglu ruddist hann skyndilega þaðan út og skaut á lögreglumennina áður en hann stökk út um glugga á íbúðinni, sem er á fyrstu hæð.

Skyttur sérsveitar lögreglunnar skutu Merah er hann reyndi að flýja og var hann látinn þegar hann féll til jarðar, að sögn heimildarmanns frönsku fréttastofunnar AFP .

Fyrirskipað að taka Merah á lífi

Francois Molins yfirsaksóknari sagði í gær að sérsveitarmönnunum hefði verið fyrirskipað að skjóta ekki að fyrra bragði og taka Merah á lífi. Hann hefði hins vegar hafið skothríð og látist þegar hann fékk byssukúlu í höfuðið. Lögreglan hefði skotið á hann í sjálfsvörn. Fimm lögreglumenn særðust í aðgerðunum í gær og fyrradag, einn alvarlega.

Merah ræddi við samningamenn lögreglunnar meðan á umsátrinu stóð og hélt því fram að hann hefði framið morðin samkvæmt fyrirmælum hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda.

Molins sagði að Merah hefði tekið öll morðin upp á myndavél, sem hann bar á bringunni. Lögregla hefði horft á upptökurnar og staðfest það.

Að sögn Molins lýsti Merah ábyrgð á morðunum á hendur sér. Hefði hann sagst vera að hefna fyrir dauða Palestínumanna og verið andvígur inngripi franska hersins í Afganistan og banni í Frakklandi við því að hylja andlit sitt með slæðum.

Molins sagði að Merah hefði tvisvar farið til Waziristans, sem nær yfir landamæri Afganistans og Pakistans, og hlotið þjálfun hjá al-Qaeda. Hann hefði verið handtekinn í Afganistan og Bandaríkjamenn hefðu sent hann aftur til Frakklands.

Yfirvöld í Afganistan og Pakistan sögðu hins vegar við eftirgrennslan AFP að þau hefðu engin gögn um ferðir Merahs.

Samtökin Jund al-Kilafah, sem tengjast al-Qaeda, lýstu í gær yfir ábyrgð á morðunum í Frakklandi, að sögn samtakanna SITE, sem vakta miðla íslamskra öfgasamtaka.

Gagnrýni á yfirvöld

Franska lögreglan og leyniþjónustan voru í gær gagnrýnd fyrir að hafa brugðist með því að fylgjast ekki með Merah. Eftir á að hyggja hefði grunur átt að beinast að honum. Hann hafði minnst 15 sinnum verið dæmdur fyrir smáglæpi og beitt ofbeldi í nokkur skipti. Hann varð að róttækum íslamista og hlaut þjálfun í Waziristan. Frönsk yfirvöld þekktu til Merahs og bróður hans vegna þess að þeir aðhylltust bókstafshugmyndir salafista.

Í einni blaðafrétt sagði að árið 2010 hefði Merah þvingað ungling til að horfa á myndbönd þar sem liðsmenn al-Qaeda hálshjuggu gísla sína. Þegar móðir drengsins kvartaði gekk Merah í skrokk á henni og þurfti hún að liggja á sjúkrahúsi í nokkra daga.

Síðar birtist Merah fyrir utan heimili konunnar klæddur hermannafötum með sverð á lofti og hrópaði: „Ég er liðsmaður al-Qaeda.“

Málið var kært og mun lögregla hafa yfirheyrt konuna, en því var ekki fylgt eftir.

GAGNRÝNENDUR SEGJA EFTIRLIT HAFA BRUGÐIST

Sarkozy boðar hertar aðgerðir

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, hét því eftir að raðmorðinginn Mohamed Merah var felldur í gær að láta til skarar skríða gegn öfgasinnum. Hann sagði í sjónvarpsávarpi að hann vildi að koma lögum yfir þá, sem reglulega fara inn á vefsíður herskárra múslíma eða til útlanda í þjálfun. Hann kvaðst einnig ætla að biðja yfirvöld að rannsaka útbreiðslu öfgahyggju í frönskum fangelsum.

Marine Le-Pen forsetaframbjóðandi, sem hefur beint spjótum sínum að múslímskum innflytjendum í kosningabaráttunni, beið ekki boðanna að saka stjórnvöld um linkind gagnvart grundvallarhættu.

Talsmaður Francois Hollande, forsetaframbjóðanda sósíalista, sagði að eftirlitskerfið í Frakklandi hefði brugðist, en bætti við að aðgerðirnar, sem Sarkozy hefði boðað, myndu ekki leysa vandamál samfélagsins.

Francois Heisbourg, sérfræðingur um öryggismál, sagði að spyrja yrði hví Merah og bróðir hans hefðu ekki verið undir eftirliti þar sem yfirvöldum hefði verið kunnugt um þá.

„Það er fullkomlega mannlegt að skjátlast. Í mínum huga var ljóst að ónæmi okkar fyrir árásum myndi ekki endast til eilífðar,“ sagði Heisbourg og rifjaði upp að síðast hefði hryðjuverk verið framið í Frakklandi 1996. „Það hlaut að koma að því að hryðjuverkamaður slyppi í gegnum netið, en auðvitað afsakar það ekki mögulegan dómgreindarbrest.“