Liðsheild Stella Sigurðardóttir skoraði 7 mörk og stóð sig mjög vel, bæði í vörn og sókn eins og raunar allt liðið.
Liðsheild Stella Sigurðardóttir skoraði 7 mörk og stóð sig mjög vel, bæði í vörn og sókn eins og raunar allt liðið. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ólafur Már Þórisson omt@mbl.is Ísland hafði öruggan sigur á Sviss, 26:19, í undankeppni Evrópumóts landsliða í handknattleik þegar þjóðirnar áttust við ytra í gær.

Handbolti

Ólafur Már Þórisson

omt@mbl.is

Ísland hafði öruggan sigur á Sviss, 26:19, í undankeppni Evrópumóts landsliða í handknattleik þegar þjóðirnar áttust við ytra í gær. Frábær vörn hjá íslensku stelpunum lagði grunninn að sigrinum og þar fyrir aftan stóð Guðný Jenný Ásmundsdóttir sem átti stórleik í markinu með 20 skot varin. Sem dæmi um varnarleikinn skoruðu leikmenn Sviss aðeins sjö mörk í síðari hálfleik en á löngum köflum í hálfleiknum voru allar leiðir lokaðar fyrir Svisslendinga.

Sóknarleikurinn gekk ágætlega en hann er þó hægt að bæta fyrir seinni leikinn á sunnudaginn þegar liðin mætast aftur.

Ágúst Jóhannsson, þjálfari Íslands, var að vonum kampakátur í leikslok þegar Morgunblaðið náði á honum. „Liðið spilaði frábærlega í þessum leik. Sviss er að mörgu leyti sterkt og erfitt að spila hérna fyrir framan átján hundruð manns sem mynduðu mikla stemningu. Þetta var sigur liðsheildarinnar, engin spurning.“

Ágúst var einnig ánægður með varnarleikinn. „Sérstaklega í seinni hálfleik og þá var Jenný mjög góð fyrir aftan. Mér fannst sóknarleikurinn heilt yfir einnig mjög góður. Þá var ég ánægður með leikmenn eins og Jónu Margréti [Ragnarsdóttur] sem skilaði miklu eins og Ragnhildur Guðmundsdóttir. Þetta eru leikmenn sem hafa ekki spilað mikið að undanförnu en standa sig vel.“

Ágúst segir það ánægjulegt í ljósi þess að breiddin sé að aukast hjá landsliðinu og það sé vel.

Skoraði í sínum fyrsta leik

Karolína Bæhrenz Lárusdóttir, ungur og efnilegur hornamaður sem spilar með Val, skoraði sitt fyrsta mark fyrir A-landslið Íslands þegar hún skoraði síðasta mark leiksins. Ágúst segir hana dæmi um að breiddin sé að aukast. „Það var glæsilegt, Karolína hefur staðið sig vel í undirbúningi okkar og í deildinni á Íslandi. Það var því frábært að hún skyldi skora í sínum fyrsta landsleik.“

Ágúst segir að Ísland eigi mikla möguleika á að ná sínum markmiðum, sem er að komast á lokamótið sem fram fer í Hollandi í desember á þessu ári. „Við þurfum bara að klára okkar vinnu og gera það vel. Það er líka ljóst að við þurfum að halda okkur á jörðinni. Verkefnið verður erfitt á sunnudaginn en ég biðla hreinlega til þjóðarinnar um að hún fylki sér á bak við stelpurnar og fylli Vodafone-höllina á Hlíðarenda. Þær eiga stuðninginn skilinn eftir frábæra frammistöðu á HM á síðasta ári.

Þær eru auk þess miklar fyrirmyndir og glæsilegir fullrúar þjóðarinnar. Ég vona því að við náum að fylla höllina og búa til sterkan heimavöll eins og við þurfum að glíma við á útivelli,“ sagði Ágúst, ákveðinn.

*Tölfræði Íslands og stöðuna í riðlinum má sjá hér til hliðar.