Arnór Sighvatsson
Arnór Sighvatsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hörður Ægisson hordur@mbl.is Gjaldeyrishöftin eru komin til að vera undir núverandi áætlun Seðlabanka Íslands um afnám hafta.

Hörður Ægisson

hordur@mbl.is

Gjaldeyrishöftin eru komin til að vera undir núverandi áætlun Seðlabanka Íslands um afnám hafta. Takmörkuð þátttaka í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans – bæði hjá íslenskum og erlendum aðilum – sýnir að það er lítill áhugi fyrir því að selja erlendar eignir fyrir íslenskar krónur um þessar mundir. Þetta kom fram í máli Davíðs Stefánssonar, hagfræðings hjá greiningardeild Arion banka, á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga um höftin.

Davíð bendir ennfremur á að þrátt fyrir að ekki sé hægt að útiloka að þeir erlendu aðilar, sem eiga hundruð milljarða í íslenskum krónum, séu reiðubúnir að vera áfram á Íslandi með eignir sínar eftir afnám hafta, þá er staðan hins vegar sú að fjárfestingamöguleikar eru fáir.

Fram kom í máli Yngva Arnar Kristinssonar, hagfræðings Samtaka fjármálafyrirtækja, að það væri fyllsta ástæða til að taka alvarlega þann möguleika að gjaldeyrishöftin mundu vara til eilífðar. Yngvi telur að hinar nýju breytingar Seðlabankans á gjaldeyrishöftunum grafi enn frekar undan trúverðugleika afnámsáætlunar bankans. Í kjölfar þessara breytinga þá mun núverandi forði aflandskróna stækka töluvert. Innlendar eignir þrotabúa eða kröfuhafa þeirra hækka skarpt á næstu misserum og gæti fjárhæð þessara „nýju“ aflandskróna numið á bilinu 500 til 700 milljörðum króna.

Að mati Yngva eru margar leiðir færar til þess að setja aflandskrónurnar í endurgreiðsluferli, til að mynda með því að gefa út skuldabréf eða halda uppboð á hverju ári. Með slíku ferli þyrfti afnám hafta ekki endilega að taka mjög langan tíma – jafnvel aðeins þrjá mánuði.

Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, segist telja að losun hafta með ásættanlegum árangri muni væntanlega taka nokkur ár. Hann segir ekki hægt að tímasetja með nákvæmum hætti afnám gjaldeyrishaftanna án verulegrar áhættu fyrir fjármálastöðugleika af því að bankinn veit ekki hversu stór hluti aflandskrónueigenda er óstöðugur.

„Þann sérkennilega smekk“

Arnór bendir auk þess á að hluti vandans um þessar mundir sé hversu háður ríkissjóður er höftunum þar sem verulegur hluti af skammtímafjármögnun ríkissjóðs er á mun lægri vöxtum en ella. Arnór segir gríðarlega mikilvægt í þessu samhengi að stjórnvöld sýni aðhald í ríkisfjármálum – ekki síst nú þegar það styttist í kosningar. Slík stefna í ríkisfjármálum gæti flýtt fyrir afnámi haftanna. Möguleg sala á Arion banka og Íslandsbanka til erlends aðila, „sem hefði þann sérkennilega smekk að vilja eignast íslenskan banka,“ gæti veitt íslenskum aðilum greiðari aðgang að lánamörkuðum erlendis, að sögn Arnórs.

BRÝNT AÐ HERÐA HÖFTIN

Óraunhæf bjartsýni um höftin

Fram kom í erindi Helga Hjörvars, formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, að það hafi verið fullkomlega óraunsætt af stjórnvöldum að setja sér það markmið að afnema gjaldeyrishöftin árið 2013. „Ég tel að það sé ein ástæðan fyrir því hversu illa gengur að afnema höftin,“ segir Helgi og bendir á í því samhengi að það dragi meðal annars úr áhuga þeirra sem eiga aflandskrónur á því að taka þátt í útboðum Seðlabankans. Að sögn Helga var brýnt að grípa til þess ráðs að herða höftin enda þótt hann viðurkenni að það „megi gagnrýna að þetta hafi ekki verið gert fyrr í vetur“ þar sem vitað hafi verið af væntanlegum vaxtagjalddögum íbúðabréfa í nokkurn tíma.