Árni Vignir Þorsteinsson fæddist 13. september 1947 í Vestra-Fróðholti í Rangárvallasýslu. Hann lést á Landspítalanum við Hringbaut 16. mars 2012. Hann var sonur hjónanna Þorsteins Sigmundssonar, f. 22.4. 1915, d. 13.3. 1992, og Jónínu Árnadóttur, f. 15.6. 1920, d. 26.9. 1992. Bræður Árna eru Grétar Þorsteinsson, f. 20.10. 1940, og Gunnar Rúnar Þorsteinsson, f. 8.2. 1957.

Eftirlifandi eiginkona Árna er Anna María Hjálmarsdóttir, f. 6.6. 1946. Þau gengu í hjónaband 16.11. 1968. Synir þeirra eru Hjálmar, f. 15.2. 1967, kona hans er Sigrún Ingibjörg Jóhannsdóttir, f. 25.1. 1976. Börn þeirra eru Harpa Lind, f. 25.11. 1998, Anna María, f. 21.9. 2002 og Jóhann Grétar, f. 27.4. 2008. Þorsteinn, f. 20.3. 1975, kona hans er Málfríður Þorleifsdóttir, f. 12.4. 1974. Börn þeirra eru Hulda Hlíf, f. 4.7. 1993, sambýlismaður hennar er Severin Messenbrink, f. 15.11. 1990. Þorleifur Árni, f. 15.3. 1996 og Óðinn Snær, f. 2.10. 2002. Elías, f. 24.6. 1978, kona hans er Inga Lára Hjaltadóttir, f. 18.2. 1984. Sonur þeirra er Adam Freyr, f. 6.4. 2011. Úr fyrra sambandi á Elías eina dóttur, Jónu Hlín, f. 18.8. 2000.

Árni Vignir verður jarðsunginn frá Þorlákskirkju, Þorlákshöfn, í dag, 23. mars 2012, og hefst athöfnin kl. 11. Jarðsett verður í Gufuneskirkjugarði.

Vissulega voru veikindin alvarleg, en samt bar brotthvarfið brátt að, allt of brátt.

Árni frændi, heilbrigðið uppmálað, reglumaður, dans- og útivistarunnandi, að ógleymdum veiðiáhuganum, sem við deildum allir, við bræðurnir, Andri sonur Jóns Gunnars og þeir bræður pabbi, Árni og Gunnar.

Stórt skarð var höggvið í veiðihópinn við fráfall Jóns Gunnars bróður og höfðum við þá á orði að veiðiferðirnar yrðu ekki samar eftir það – Veiðiferðirnar verða ekki samar héðan í frá.

Margar eru minningarnar, t.a.m. frá uppvaxtarárum okkar systkina þegar við fórum með mömmu og pabba og dvöldum yfir jól og áramót hjá ömmu og afa í Þorlákshöfn, ásamt föðurbræðrum okkar og fjölskyldum þeirra.

Tvennt er mér þó efst í huga þegar ég minnist Árna frænda, annars vegar hversu hlýlega var alltaf tekið á móti okkur og öðrum gestum á heimili þeirra hjóna, Önnu og Árna og ávallt var gnótt veitinga, sama hvert tilefnið var. Hins vegar tengt veiðiskapnum, sama hvert för okkar var heitið, um troðnar eða ótroðnar slóðir og í allmörgum tilfellum farið um árbakka og ófærur sem eingöngu voru færar jeppum, eða í öllu falli fjórhjóladrifnum farartækjum, þá kom minn maður alltaf í kjölfarið á fólksbílnum sínum, hinni vökru Toyotu. Hann fór jafnan allt sem aðrir komust og í einhverjum tilfellum lengra ef eitthvað var. Þessu dáðist ég alltaf að hann virtist aldrei setja neitt fyrir sig eða sýndi að eitthvað væri óyfirstíganlegt.

Hann var líka lunkinn við veiðarnar. Stundum var dræmt í veiði og jafnvel ekkert dregið að landi hjá okkur hinum, en ef einhver fiskaði þá var það hann sem fékk'ann.

Allt framkvæmdi hann, að því er virtist, án nokkurrar fyrirhafnar og ávallt af mikilli kostgæfni og yfirvegun.

Ég kveð föðurbróður minn, Árna frænda, með miklum söknuði, góður maður er genginn.

Hjörtur Þór Grjetarsson.