Einar Guðmundsson kennari fæddist í Reykjavík 11. september 1952. Hann lést á Landspítalanum Fossvogi 3. mars síðastliðinn.

Útför Einars fór fram frá Kópavogskirkju 12. mars 2012.

Einar Guðmundsson var í raun fyrsti starfsmaður Fjölbrautaskólans á Akranesi. Þegar ég kom til starfa við skólann hitti ég þennan unga hávaxna mann sem var að bera í hús fyrsta námsvísi skólans. Einar hafði verið ráðinn til að semja hann og var það nokkurt afrek þar sem hann hafði ekki reynslu af starfi í áfangaskólum þegar þetta gerðist. Einar var afbragðs stærðfræðikennari og gegndi trúnaðarstörfum yfirkennara í grunnskóladeildum Fjölbrautaskólans. Hann var vinsæll og virtur af nemendum og samstarfsmönnum sínum.

Einari var sérstaklega annt um stærðfræðikennsluna og náði góðum árangri með nemendum sínum. Hann tók einnig virkan þátt í tilraunaverkefni er Fjölbrautaskólinn á Akranesi fékk undanþágu frá samræmdu prófunum og fékk að taka nemendur sína í 9. bekk (nú 10. bekk) inn í framhaldsskólaáfanga sem skilaði þeim árangri að tveir þriðju hluta nemenda luku námi á undan jafnöldrum sínum.

Einar hafði líka umsjón með félagsstörfum nemenda og kom þá vel í ljós hversu vel honum tókst að vinna með ungu fólki. Vil ég votta ástvinum hans samúð við skyndilegt fráfall hans og þakka að leiðarlokum samstarfið í Fjölbrautaskólanum á Akranesi fyrir rúmum þremur áratugum.

Ólafur Ásgeirsson,

fyrrverandi skólameistari.