Margrét Lára Viðarsdóttir
Margrét Lára Viðarsdóttir
Margrét Lára Viðarsdóttir og stöllur hennar í þýska meistaraliðinu Turbine Potsdam áttu ekki í miklum erfiðleikum með að tryggja sér sæti í undanúrslitum í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í gær.

Margrét Lára Viðarsdóttir og stöllur hennar í þýska meistaraliðinu Turbine Potsdam áttu ekki í miklum erfiðleikum með að tryggja sér sæti í undanúrslitum í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í gær. Potsdam sótti FC Rossiyanka heim til Rússlands í gær í síðari viðureign liðanna og fagnaði 3:0 sigri og vann einvígið samtals, 5:0.

Margrét, sem hefur glímt við meiðsli frá því á Algarve-mótinu, lék síðustu 20 mínútur leiksins en náði ekki að skora. Japanska landsliðskonan Yuki Nagasato skoraði tvö marka þýsku meistaranna og það fyrsta skoraði Babett Peter, leikmaður þýska landsliðsins.

Margrét Lára er fyrsta íslenska knattspyrnukonan sem kemst í undanúrslit í Meistaradeildinni en andstæðingur Turbine Potsdam verður franska liðið Lyon. Þessi sömu lið hafa mæst í úrslitum Meistaradeildarinar tvö síðustu árin. Í fyrra hafði Lyon betur, 2:0, en árið 2010 fagnaði Potsdam sigri þar sem úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni.

Í hinni undanúrslitaviðureigninni eigast við Arsenal og þýska liðið Frankfurt. Leikirnir í undanúrslitunum fara fram 14./15. og 21./22. apríl en úrslitaleikurinn verður háður á Ólympíuleikvanginum í München 17. maí.

gummih@mbl.is