Baldvin Halldórsson, leikari og leikstjóri, fæddist á Arngerðareyri við Ísafjarðardjúp 23. mars 1923. Hann var sonur Halldórs Jónssonar, kennara og bónda á Arngerðareyri, síðast í Reykjavík, og Steinunnar Guðrúnar Jónsdóttur húsmóður.

Baldvin Halldórsson, leikari og leikstjóri, fæddist á Arngerðareyri við Ísafjarðardjúp 23. mars 1923. Hann var sonur Halldórs Jónssonar, kennara og bónda á Arngerðareyri, síðast í Reykjavík, og Steinunnar Guðrúnar Jónsdóttur húsmóður.

Baldvin lauk gagnfræðaprófi á Ísafirði, prentnámi við Alþýðuprentsmiðjuna og sveinsprófi í setningu. Hann stundaði nám við Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar, við Royal Academy of Dramatic Art í Lundúnum og stundaði síðar nám í leikstjórn við Vasaseminariet í Vasa í Finnlandi og í Lundi í Svíþjóð.

Baldvin var leikari hjá Leikfélagi 1943-46, starfaði með leikflokknum Sex í bíl 1950 og 1951, var leikari við Þjóðleikhúsið frá 1950 og leikstjóri þar frá 1955. Hann var auk þess leikari og leikstjóri hjá Ríkisútvarpinu frá 1950 og hjá Ríkissjónvarpinu frá 1971. Auk þess leikstýrði hann fyrir Leikfélag Reykjavíkur, Leikfélag Akureyrar, Leikfélag Kópavogs, Grímu, Herranótt Menntaskólans í Reykjavík og fleiri.

Hann lék hátt á annað hundrað hlutverka á leiksviði og í kvikmyndum, s.s. séra Jón Prímus í Kristnihaldi undir Jökli.

Fyrir sjónvarp leikstýrði hann m.a. Jóni í Brauðhúsum, og Lénharði fógeta. Þá sinnti Baldvin kennslu í framsögn og taltækni, við Leiklistarskóla Þjóðleikhússins og fjölda skóla og kenndi framsögn hjá stéttar- og starfsmannafélögum í Reykjavík.

Baldvin sinnti ýmsum trúnaðarstörfum, var formaður Félags íslenskra leikara og sat í ritnefnd Theatre in Iceland. Hann hlaut Maxwell Hilton James-verðlaunin fyrir skapgerðarleik í RADA; Menningarsjóðsstyrk Þjóðleikhússins; Kardemommu-verðlaunin; Silfurmerki Félags íslenskra leikara og gullmerki félagsins 1993.

Baldvin var kvæntur Vigdísi Pálsdóttur handavinnukennara, en börn Baldvins og Vigdísar eru Páll Baldvin bókmenntagagnrýnandi; Inga Lára, deildarstjóri í Þjóðminjasafni Íslands, og Guðrún Jarþrúður, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.

Baldvin lést 13. júlí 2007.