Stuttmynd Kitty Von Sometime fjallar um fegurðina á skemmtilegan og frumlegan hátt í stuttmynd sinni Episode 15 sem frumsýnd er í dag í Bíó Paradís.
Stuttmynd Kitty Von Sometime fjallar um fegurðina á skemmtilegan og frumlegan hátt í stuttmynd sinni Episode 15 sem frumsýnd er í dag í Bíó Paradís.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vilhjálmur Andri Kjartansson vilhjalmur@mbl.is Í dag sýnir Bíó Paradís stuttmyndina Episode 15 eftir Kitty Von Sometime, höfund The Weird Girls Project.

Vilhjálmur Andri Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Í dag sýnir Bíó Paradís stuttmyndina Episode 15 eftir Kitty Von Sometime, höfund The Weird Girls Project. Myndin eða öllu heldur verkefnið heitir fullu nafni The Weird Girls Project – Episode 15: Beauty is only skin deep. Verkið er síðasta verkefni hennar á Íslandi í bili en Kitty fer til Kína í apríl til að vinna að sambærilegum verkefnum og hún hefur unnið að hér á landi í boði Converse China.

Episode 15 er að sögn Kytti ádeila á viðhorf samfélagsins til lýtaaðgerða. „Ég er ekki að segja að lýtaaðgerðir séu alltaf ónauðsynlegar eða eingöngu til að svala hégóma fólks. Það sem ég er að benda á er viðhorf samfélagsins til þeirra. Mér finnst eitthvað að þegar átján og nítján ára stelpur eru að láta stækka á sér brjóstin eða láta setja fyllingu í varirnar og það þykir eðlilegt,“ segir Kitty. Að hennar sögn eru íslenskar konur þær fallegustu í heiminum og lýtaaðgerðir afskræmi íslensku fegurðina. „Ég átta mig á því að fyrir margar konur snýst þetta um vellíðan og ég ætla ekki að gera lítið úr því. Ég er ekki að fara fram á lagasetningu eða á nokkurn hátt að reyna að segja fólki til hvernig það eigi að haga sínu lífi. Ég er eingöngu að segja mína skoðun á þessu og vona að fólk taki skilaboðin til sín.“

Þá bendir Kitty á að öllum aðgerðum fylgi einhver áhætta og að hennar mati ætti fólk ekki að setja sjálft sig í hættu að óþörfu. „Við erum börn einhverra, foreldrar, ástvinir og kunningjar. Það eru alltaf einhverjir sem elska okkur og þykir vænt um og við eigum ekki að stofna sjálfum okkur í hættu fyrir hégóma.“

Kitty tekur það þó skýrt fram að hún átti sig á því að margir þurfi á lýtaaðgerð að halda, t.d. eftir slys eða veikindi.

Í apríl stefnir Kitty til Kína þar sem hún mun vinna að sambærilegum verkefnum og hér á landi. „Ég mun vinna að og gefa út þrjá Episoda í Kína og vinn þá með íslensku hljómsveitinni SYKUR.“

Kitty segir allt öðruvísi að vinna sambærilegt verk í Kína. „Ég hef tvisvar komið til Kína og ég fann strax að fólk er ekki frjálst í sama ljósi og einstaklingar á Vesturlöndum. Samfélagið er samt að breytast þó að það gerist hægt.“

Hugmynd Kitty er að nota listina til að ýta undir það að konur í Kína opni sig meira, sæki á vinnumarkað og í nám. „Konur eru að koma út af heimilinu þó að það sé nokkuð nýtt í Kína og ég vil nota listina mína til að benda á að hjálpa ferlinu að ganga hraðar fyrir sig.“

NÁTTÚRULEG FEGURÐ

Fegurðin í fjölbreytni

„Þegar tökur hófust spurði ég stelpurnar hverjar myndu vilja vera berar að ofan í tökum. Rúmur helmingur var til í það og í lokin á tökum uppgötvuðu flestar að þær höfðu ekkert að skammast sín fyrir. Við erum ekki öll eins og höfum styrk og veikleika. Við erum ólík, það gefur lífinu gildi. Það væri ekki gaman ef allir væru eins,“ segir Kitty Von Sometime spurð um fegurðina.