Bókamaður Valgeir og Sigríður fyrir framan bókaskápinn í stofunni. Í íbúðinni eru fleiri veggir þaktir bókum.
Bókamaður Valgeir og Sigríður fyrir framan bókaskápinn í stofunni. Í íbúðinni eru fleiri veggir þaktir bókum. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valgeir fæddist í Fremri-Hlíð í Vopnafjarðarhreppi í Vopnafirði og ólst þar upp í foreldrahúsum við öll almenn sveitastörf þess tíma en foreldrar hans voru með kýr til heimilisnota en annars sauðfé.

Valgeir fæddist í Fremri-Hlíð í Vopnafjarðarhreppi í Vopnafirði og ólst þar upp í foreldrahúsum við öll almenn sveitastörf þess tíma en foreldrar hans voru með kýr til heimilisnota en annars sauðfé.

Valgeir naut barnaskólamenntunar við farskóla sveitarinnar sem oft var haldinn í Ytri-Hlíð sem var næsti bær við heimili hans.

Valgeir stundaði síðar nám við Héraðsskólann á Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu og lærði síðan bókband við Iðnskólann á Akureyri.

Fimmtán ár hjá Pósti og síma

Valgeir stundaði bústörf á búi foreldra sinnar fram til 1952. Hann hóf þá störf hjá Pósti og síma á Vopnafirði og starfaði þar á árunum 1952-57 auk þess sem hann vann nokkuð við bókband fyrir ýmsa aðila.

Hann flutti til Reykjavíkur 1957 þar sem hann sinnti afgreiðslu á böggladeild Póstshússins á árunum 1957-63, sem þá var til húsa í Hafnarhvoli við Tryggvagötu. Hann starfaði síðan við endurskoðunardeild Landssímans í Landssímahúsinu við Austurvöll á árunum 1963-66. Þá hóf hann störf hjá Olíufélaginu Skeljungi á Suðurlandsbraut 4 og starfaði þar í bókhaldsdeild á árunum 1966-72.

Blaðamennska á Tímanum og störf á skjalasafn Alþingis

Valgeir hóf blaðamennsku, fyrst í hlutastarfi er hann skrifaði fasta viðtalsþætti í sunnudagsblað Tímans frá 1969. Hann var síðan í föstu starfi sem blaðamaður við Tímann á árunum 1972-79.

Haustið 1979 hóf Valgeir störf við skjaladeild Alþingis og starfaði þar til 1997 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.

Rit Valgeir hefur skrifað fjölda viðtalsþátta í blöð, tímarit og bækur og er höfundur eftirtalinna bóka með viðtalsþáttum: Ef liðsinnt ég gæti, útg. af Skuggsjá, 1974; Um margt að spjalla, útg. af Bókaforlagi Odds Björnssonar á Akureyri, 1978; Við manninn mælt, þættir, útgefnir af Skjaldborg, 1989, og Ný framtíð í nýju landi, viðtalsþættir við þýskar konur sem komu hingað til lands á fyrstu árunum eftir síðari heimsstyrjöldina og gerðust gjarnan húsfreyjur á íslensku sveitaheimilum, útg. af Skjaldborg 1999.

Þá er Valgeir aðalhöfundur og ritstjóri bókarinnar Dýrmæt reynsla, útg. Bókaútgáfunni Hólum á Akureyri 2004.

Valgeir heillaðist snemma af samtalsforminu og telur að ástæðan sé m.a. sú að góður höfundur dragi oft fram persónuleika viðmælanda síns. Hann segir að í góðum samtölum geti höfundurinn komið viðmælanda sínum til skila án þess að afsala sér eigin stíl og málfari.

Valgeir hefur auk þess komið að gerð ýmissa annarra bók og á þar efni, en þar má m.a. nefna ritin Nærmynd af Nóbelsskáldi; Landhelgisgæsla Íslands 80 ára, og nokkur fyrstu bindin af Iðnsögu Íslendinga, undir ritstjórn Jón Böðvarssonar.

Valgeir hefur skrifað mikinn fjölda þátta og greina dagblöð og tímarit, ekki síst í Morgunblaðið á undangengum árum. Þá hafa birst eftir hann ljóð í ljóðasöfnum, s.s. Raddir að austan og í Ljóðakveri aldraðra, sem og í blöðum og tímaritum.

Valgeir starfaði í ungmennafélaginu Einherjum á Vopnafirði á sínum yngri árum, hefur verið félagi í Rithöfundasambandi Íslands, er einn af upphafsmönnum að stofnun Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins og er varaformaður þeirra frá upphafi.

Fjölskylda

Valgeir kvæntist 1.6. 1963 Sigríði Einars Sveinsdóttur frá Reyni í Mýrdal, f. 28.11. 1932, BA í ensku og sögu og framhaldsskólakennara. Foreldrar hennar voru Sveinn Einarsson, bóndi og kennari á Reyni í Mýrdal, og Þórný Jónsdóttir húsfreyja.

Sonur Valgeirs og Sigríðar er Sveinn Valgeirsson, f. 10.7. 1966, sóknarprestur á Eyrarbakka, en eiginkona hans er Ásdís Auðunsdóttir þroskaþjálfi og eru synir þeirra Ragnar Sveinsson, f. 1990, og Sigurgeir Sveinsson, f. 1996.

Stjúpdóttir Valgeirs og dóttir Sigríðar er Þórný Perrop, f. 5.3. 1960, BA í ensku og frönsku og lengi bókavörður við Háskólabókasafnið og síðar Háskólabókasafn – Þjóðarbókhlöðu.

Systur Valgeirs voru Sigríður Sigurðardóttir, f. 31.10. 1923, d. 22.3. 2008, var húsmóðir í Reykjavík og lengi starfsstúlka við sjúkrahús, var gift Gísla Stefánssyni sem einnig er látinn, skrifstofumanni hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík og eignuðust þau einn son, Sigurð Gísla lögfræðing sem nú er dómari á Suðurlandi; Aðalbjörg Sigurðardóttir, f. 9.8. 1930, d. 17.6. 2005, lengi starfsstúlka við hótel og sjúkrahús í Reykjavík, var gift Birni Guðmundssyni leigubifreiðastjóra sem einnig er látinn.

Foreldrar Valgeirs voru Sigurður Þorsteinsson, f . 10.6. 1883, d. 9.12. 1975, bóndi í Fremri-Hlíð í Vopnafjarðarhreppi, og k.h., Guðrún Sigríður Sigurjónsdóttir, f. 13.2. 1899, d. 18.1. 1962, húsfreyja í Fremri-Hlíð.