Vonbrigði Keflvíkingar sýndu Fjölnismönnum enga miskunn og Grafarvogsbúar lentu í 9. - 10. sæti.
Vonbrigði Keflvíkingar sýndu Fjölnismönnum enga miskunn og Grafarvogsbúar lentu í 9. - 10. sæti. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Grafarvogi Kristinn Friðriksson sport@mbl.is Síðasta umferð Iceland Express-deildar karla í körfuknattleik fór fram í gær og einn mikilvægasti leikur hennar var í Dalhúsum þar sem Keflvíkingar heimsóttu Fjölnismenn.

Í Grafarvogi

Kristinn Friðriksson

sport@mbl.is

Síðasta umferð Iceland Express-deildar karla í körfuknattleik fór fram í gær og einn mikilvægasti leikur hennar var í Dalhúsum þar sem Keflvíkingar heimsóttu Fjölnismenn. Heimamenn þurftu nauðsynlega á sigri að halda til að komast í úrslitakeppnina. Keflvíkingar voru að berjast fyrir 4. sætinu en sigur, ásamt hagstæðum úrslitum, gat gefið þeim heimavallarréttinn í fyrstu umferð. Hvorugt liðið fékk drauma sína uppfyllta; Keflavík sigraði 98:99 eftir framlengdan leik. Fjölnismenn sitja eftir með blóðugt sár á enninu eftir að hafa leitt mestallan leikinn.

Eftir þunglamalega byrjun beggja liða vöknuðu leikmenn til lífsins þegar Nathan Walkup hamraði fírtommu í andlitið á Almar Stefánssyni þannig að úr varð veggmynd. Hraðinn jókst, sem bauð upp á marga tapaða bolta, skemmtilegar körfur, lélega vörn og illa framkvæmd sniðskot. Fjölnir leiddi 30:23 eftir fyrsta hluta og var einu skrefi á undan en gestirnir aldrei langt undan, staðan í hálfleik 49:45 í léttúðugum og skemmtilegum leik.

Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn með miklum látum; vörnin batnaði stórlega og Magnús Gunnarsson skoraði þrjá þrista á fyrstu mínútunum, staðan skyndilega 51:58. Fjölnismenn létu þetta hins vegar ekkert á sig fá og breyttu stöðunni í 62:58 á næstu tveimur mínútum og allt stefndi í spennuleik með dramatísku ívafi. Fjölnir náði aftur undirtökunum í leiknum, þökk sé Björgvini Ríkharðssyni, sem fór á kostum og skoraði 10 í leikhlutanum, þar af eina vinstrihandarveggmyndatroðslu.

O'Neil aftur og óskiljanlega

Pressu- og svæðisvörn Keflavík tók sinn toll; það hægðist verulega á leiknum og gestirnir komu sér aftur í leikinn. Þegar fimm mínútur voru eftir setti Maggi sinn fimmta þrist og jafnaði leikinn, 80:80. Næstu mínútur skiptust liðin á forystu en þegar 40 sekúndur voru eftir setti gamla brýnið Hjalti Vilhjálmsson þrist, 86:84. Cole jafnaði leikinn og heimamenn fengu eina skotklukku til að klára dæmið og komast í úrslitakeppnina; Calvin O'Neil keyrði inn en slök tilraun hans víðsfjarri.

Keflavík náði undirtökunum þegar O'Neil klikkaði úr sínu fjórða víti í röð! Í stöðunni 90:92 setti Arnþór Guðmundsson risaþrist. Títtnefndur Cole jafnaði þegar ein mínúta var eftir. Arnþór skoraði aftur og Fjölnir kominn í frábær mál þegar 40 sekúndur lifðu leiks. Þeir voru hins vegar ekki lengi í paradís því Magnús setti enn stærri þrist og fékk villu að auki, staðan 95:97 þegar 23 sekúndur voru eftir. Aftur, og óskiljanlega, var það O'Neil sem átti að ljúka leik heimamanna; arfaslök tilraun hans var varin auðveldlega af Cole, sem fékk vítaskot í kjölfarið; staðan 95:99 og von Fjölnis smávaxin. Þristur frá Hjalta gaf heimamönnum aukna von. Valur Valsson klikkaði úr tveimur vítum, 98:99, og þrjár sekúndur eftir. Walkup náði frákastinu, rakti boltann að miðju, lét vaða og boltinn hársbreidd frá því að rata heim.

Örlögin voru Fjölni ekki blíð í gær og úrslitakeppnin ekki hluti þeirra. Það má segja að ósigur Fjölnis hafi verið ósanngjarn þó svo að sigur Keflavíkur hafi ekki verið það.

Keflvíkingar mættu yfirvegaðir til leiks; létu ekkert fá á sig að elta heimamenn allan leikinn og gerðu vel í að ræna sigrinum í lokin. Cole og Magnús voru of stór biti fyrir Fjölni, en þeir spiluðu frábæran leik, 65 stig samanlagt, og enduðu leikinn vel. Það er verðugt verkefni fyrir Sigga og félaga að mæta Stjörnunni og verður ein áhugaverðasta rimma fyrstu umferðar.

Mjög ósanngjarnt tap ungu piltanna í Fjölni. Arnþór, Walkup og Hjalti voru góðir í gær. Björgvin var hins vegar frábær og ég hefði viljað sjá hann spila meira í lok leiks. Leikmenn geta ekki brennt af sjö vítum í röð og unnið spennuleik. Menn mega heldur ekki gleyma því hver mótherjinn er. Keflavík kemur til baka þegar þú ert að fagna því að „vera næstum því búinn að vinna“. Fjölnismenn geta sjálfum sér um kennt en klappað sjálfum sér á bakið i leiðinni fyrir frábært tímabil – glæsilegur hópur ungra fola sem eiga eftir að gera góða hluti í framtíðinni, takk fyrir mig.