Tölvunörd Lorna Evans, hjá samtökum leikjaframleiðenda í Bretlandi, var meðal þeirra sem voru á ráðstefnunni í gær að ræða framtíð tölvuleikja.
Tölvunörd Lorna Evans, hjá samtökum leikjaframleiðenda í Bretlandi, var meðal þeirra sem voru á ráðstefnunni í gær að ræða framtíð tölvuleikja. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is Tölvuleikjageirinn á Íslandi veltir 50 milljónum evra (8,3 milljörðum íslenskra króna) og það vinna við hann um 500 manns á landinu.

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

Tölvuleikjageirinn á Íslandi veltir 50 milljónum evra (8,3 milljörðum íslenskra króna) og það vinna við hann um 500 manns á landinu. Bretar eru farnir að horfa hýru auga til íslenskra fyrirtækja í bransanum með samstarf í huga en þeir eru stærstir í geiranum í Evrópu. Velta breska tölvugeirans er um einn milljarður punda og skapar hann um 25.000 störf.

Þetta er meðal þess sem kom fram á ráðstefnu IGI, samtaka íslenskra leikjaframleiðenda, sem haldin var samhliða hátíð aðdáenda EveOnline leiksins sem CCP framleiðir, í Hörpunni í gær.

Á ráðstefnunni var mikið talað um þær skattaívilnanir sem breska ríkisstjórnin samþykkti núna í vikunni og að sögn þeirra Breta sem talað var við munu þær hafa veruleg áhrif til góðs. „Á undanförnum árum höfum við fundið fyrir verulega aukinni samkeppni frá Kanada, en Nova Scotia hefur gefið fyrirtækjum í tölvuleikjabransanum verulegar skattaívilnanir, þannig að þetta mun hjálpa okkur í þessari baráttu,“ segir Lorna Evans sem er verkefnisstjóri hjá TIGA, sem eru samtök leikjaframleiðenda í Bretlandi. „Þetta er nokkuð sem íslensk stjórnvöld ættu að skoða alvarlega. Við höfum verið í þessari baráttu lengi í Bretlandi. Fyrst tók enginn tölvuleikjabransann alvarlega, hann þótti ekki nógu fínn. En bransinn hefur vaxið svo gríðarlega að við höfum farið fram úr bíómyndabransanum og munum fara fram úr tónlistarbransanum.

Á næstu árum munu tölvuleikir í snjallsímum skipta miklu máli. Þar er mesta hagnaðarvonin. Tölvuleikjabúðir eru á niðurleið en tölvuleikir á netinu og í símum eru á uppleið. Stjórnvöld eru loksins að kveikja á perunni enda skilar bransinn breska ríkinu árlega 380 milljónum punda í kassann.“