Gallaður Einn þeirra sprungnu brjóstapúða sem teknir hafa verið.
Gallaður Einn þeirra sprungnu brjóstapúða sem teknir hafa verið. — Ljósmynd/Landspítalinn
Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Svo virðist sem PIP-brjóstapúðarnir sem nú er verið að fjarlægja úr íslenskum konum séu verr farnir en búist var við.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Svo virðist sem PIP-brjóstapúðarnir sem nú er verið að fjarlægja úr íslenskum konum séu verr farnir en búist var við. Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður þeirra kvenna sem ætla að höfða mál vegna falsaðra PIP-púða, segir að það sé að koma í ljós núna eftir að byrjað var að fjarlægja púðana úr konunum að málið sé ljótara en flestir bjuggust við.

Myndin sem sést hér til hægri er af sprungnum PIP-brjóstapúða sem var nýverið fjarlægður úr einum umbjóðenda Sögu í aðgerð á Landspítalanum. Sú kona var með báða púðana sprungna en sá í hægra brjóstinu var verr farinn og hafði sílikonið lekið um stórt svæði með tilheyrandi graftarmyndun. „Þetta er ekki versta tilfellið sem ég hef séð en þetta er mjög slæmt tilfelli. Þetta hefur komið svona út hjá nokkrum konum sem hafa látið fjarlægja úr sér púðana,“ segir Saga

Konan sem um ræðir fékk PIP-brjóstapúðana ígrædda fyrir um tíu árum hjá Jens Kjartanssyni lýtalækni. Hún var farin að kenna sér meins og má búast við að púðarnir hafi sprungið fyrir löngu. „Heilsa hennar var orðin í takt við púðana, í mauki, og það var gríðarlegur léttir fyrir hana að losna við þá. Það er ekki bara það að púðarnar séu ógeðslegir heldur er þetta ósamþykkt iðnaðarsílikon sem lekur þarna um líkama hennar.“

Um 25 konur hafa staðfest við Sögu að þær vilji fara með málsóknina vegna PIP-púðanna alla leið ef svo fer að Jens og dreifingaraðili synji bótaskyldu. Svo virðist sem hluta af málunum verði stefnt gegn íslenska ríkinu. „Um mitt árið 2006 var birt skýrsla þess efnis að þessir púðar væru lélegri en aðrir púðar og þá finnst manni að eftirlitsskyldir aðilar á Íslandi hefðu átt að vakna upp.“