Enska Málsháttur sem kom úr páskaeggi nr. 1 frá Nóa Siríus fyrir skömmu.
Enska Málsháttur sem kom úr páskaeggi nr. 1 frá Nóa Siríus fyrir skömmu.
Nokkur páskaegg nr. 1 frá Nóa Siríusi með enskum málshætti innanborðs laumuðu sér í verslanir hérlendis. Finnur Geirsson, forstjóri Nóa Siríus, segir að það sé alls ekki meiningin að fara að innleiða ensku á íslenskum markaði.

Nokkur páskaegg nr. 1 frá Nóa Siríusi með enskum málshætti innanborðs laumuðu sér í verslanir hérlendis. Finnur Geirsson, forstjóri Nóa Siríus, segir að það sé alls ekki meiningin að fara að innleiða ensku á íslenskum markaði. Þau mistök hafi átt sér stað í framleiðslunni að páskaegg sem voru ætluð fyrir Bandaríkjamarkað, og innihéldu því málshætti á ensku, blönduðust saman við eggin fyrir íslenskan markað með fyrrgreindum afleiðingum. „Þetta gerðist einu sinni með páskaegg nr. 1 og voru mistök sem við leiðréttum fljótlega. Það var mjög takmarkað magn sem fór út með enskum málsháttum,“ segir Finnur.

Nói Siríus hefur síðustu ár flutt lítið magn af páskaeggjum út til Bandaríkjanna, og er það eina landið sem egg eru flutt út til auk þess sem fyrirtækið sendir páskaegg til Íslendingafélaga víða um heim. „Við höfum verið að selja súkkulaði í vaxandi mæli í Whole Foods verslunum í Bandaríkjunum og það fylgir með reytingur af páskaeggjum á þessum árstíma,“ segir Finnur.

Spurður hvort Nói Siríus leiti á ný mið í málsháttunum í ár svarar Finnur að það sé ekki, þar á bæ séu menn mjög íhaldssamir í málsháttamálum.

Finnur segir að aðeins hafi verið hringt í fyrirtækið vegna ensku málsháttanna. „Menn voru eðlilega ekkert hressir með þetta en því miður gerðist þetta fyrir mistök.“

ingveldur@mbl.is