Illugi Gunnarsson
Illugi Gunnarsson
Eftir Illuga Gunnarsson: "Fyrirtækið Creditinfo birti á dögunum gögn um vanskil fyrirtækja. Þar kom fram að um 6.300 fyrirtæki væru nú í vanskilum"

Á dögunum lýsti ráðherra efnahagsmála, Steingrímur J. Sigfússon, því í blaðagrein að enn væru þeir til sem ekki hefðu meðtekið þann árangur í efnahagsmálum sem ríkisstjórnin hefur náð. Þeir hinir sömu ömuðust meðal annars yfir því að fjárfesting í atvinnulífinu væri ekki næg og stöguðust á því að hagvöxturinn væri allt of mikið drifinn áfram af aukinni einkaneyslu. Eftir hrun bankakerfisins hefur það verið gagnrýnt að yfirvöld hlustuðu ekki nægjanlega vel á þá sem vöruðu við því að hagvöxtur áranna fyrir hrun hefði verið að hluta til innistæðulaus, drifinn áfram af of miklum lántökum. Viðbrögð núverandi efnahagsmálaráðherra við gagnrýni um einkaneysludrifinn hagvöxt eru umhugsunarefni og ráðherrann virðist horfa fram hjá þeim fjölmörgu hættumerkjum sem nú blasa við í efnahagslífinu.

Vaxandi vanskil fyrirtækja

Fyrirtækið Creditinfo birti á dögunum gögn um vanskil fyrirtækja. Þar kom fram að um 6.300 fyrirtæki væru nú í vanskilum, um fimmtungur allra fyrirtækja á Ísland og áætlað væri að hátt í tvö þúsund fyrirtæki myndu bætast við á þennan lista á næstu mánuðum. Þessar tölur gefa til kynna að íslensk fyrirtæki eiga við vaxandi vandamál að etja, sem meðal annars koma fram í of litlum fjárfestingum og því að störfum fjölgar ekki.

Atvinnuleysi óbreytt

Á liðnu ári mældist vissulega umtalsverður hagvöxtur. En hann var drifinn áfram af neyslu og auknum sjávarafla, fyrst og fremst makríl. Það sem veldur áhyggjum er hversu hægt gengur að vinna á atvinnuleysinu þrátt fyrir hagvöxt. Hagvöxturinn skilaði ekki nægjanlega mörgum nýjum störfum, atvinnuleysi er ennþá yfir sjö prósentum. Nýjustu tölur Hagstofunnar styðja þessa niðurstöðu. Ekkert hefur miðað í þessum efnum, þrátt fyrir síendurteknar yfirlýsingar forsætisráðherra um væntanlega fjölgun starfa.

Ósjálfbær einkaneysla

Aukin einkaneysla á sér einkum rætur í kjarasamningum sem byggðir voru á þeirri forsendu að fjárfesting myndi aukast mjög hratt á samningstímanum. Jafnframt tók stór hluti landsmanna út hluta af séreignarlífeyri á liðnu ári og jókst neysla samfara því. Einnig hefur yfirdráttur heimilanna aukist hratt að undanförnu og er óþarfi að útlista hversu alvarlegt merki það er.

Fjárfestingar ónógar

Fjárfestingin í atvinnulífinu hefur vissulega tekið við sér, enda hafði hún farið niður í algert lágmark. En sú aukning er langt í frá nægjanleg til þess að standa undir þeim hagvexti sem við þurfum til þess að vinna niður atvinnuleysið. Fjárfestingar þurfa því að aukast miklu meira til þess að hagkerfið komist aftur á réttan kjöl og á það bæði við erlendar sem og innlendar fjárfestingar. Frumforsenda þess að svo megi verða er að það dragi verulega úr pólitískri óvissu í landinu.

Verðbólga og fasteignabóla

Á sama tíma og þessi óveðursmerki hrannast upp, er verðbólga langt yfir markmiði Seðlabankans og sjá má merki um eignabólu á fasteignamarkaði. Verðbólgan hækkar lán heimilanna og étur upp kauphækkanir, kjör almennings munu rýrna vegna þessa og yfirvofandi er vaxtahækkun Seðlabankans. Þar með hækkar vaxtakostnaður bæði heimilanna og fyrirtækjanna, og hærri vextir draga úr hvata til að fjárfesta.

Upplausn og klofningur

Þessi vandamál verða erfiðari viðfangs vegna þess að búið er að skapa mikla óvissu um ýmis grundvallaratriði í samfélagi okkar. Breytingar á stjórnarskránni hafa farið í einhvern furðufarveg, sjávarútvegsmálin eru í uppnámi og augljóst er að orkunýtingarstefnan er í gíslingu vegna ósættis innan ríkisstjórnarflokkanna. Gjaldeyrishöftin herðast enn og það vantar allan kraft af hálfu ríkisstjórnarinnar til að leysa þann mikla vanda. Því miður er það staðreynd að pólitísk óvissa og aðgerðaleysi er vaxandi efnahagsvandamál á Íslandi, einmitt á þeim tíma sem við þurfum mest á að halda festu og ábyrgð í störfum ríkisstjórnar og Alþingis.

Höfundur er alþingismaður.