HANDBOLTI Ívar Benediktsson iben@mbl.is Næstsíðasta umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik, N1-deildarinn, fer fram í kvöld og ríkir spenna í herbúðum flestra liða í deildinni.

HANDBOLTI

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Næstsíðasta umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik, N1-deildarinn, fer fram í kvöld og ríkir spenna í herbúðum flestra liða í deildinni. Aðeins eitt lið er öruggt um sæti í úrslitakeppni fjögurra efstu liðanna um Íslandsmeistaratitilinn. Haukar tryggðu sér keppnisrétt í úrslitakeppninni í síðustu umferð sem fram fór á mánudaginn. Fimm félög eiga hinsvegar möguleika á að fylgja Haukum í úrslitakeppnina, FH, Akureyri, HK, Fram og Valur. Síðastnefnda liðið á minnsta möguleika en það hefur 20 stig. Til þess að Valsmenn tryggi sér sæti í úrslitakeppninni þarf liðið að vinna báða leiki sína, gegn Gróttu í kvöld og á móti Akureyri nyrðra eftir viku, og um leið treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum.

Fram er í 5. sæti með 23 stig eins og HK sem er í fjórða sæti. HK er hinsvegar fyrir ofan eftir að hafa unnið báðar viðureignir liðanna til þessa. HK og Fram mætast í lokaumferðinni mun Fram ekki nægja að vinna þann leik verði liðin áfram þá áfram jöfn að stigum.

HK sækir FH heim í kvöld en Fram fær Akureyri í heimsókn.

Akureyri sem er í þriðja sæti getur tryggt sér sæti í úrslitakeppninni með sigri á Fram í kvöld og vinni HK í heimsókn í Kaplakrika á sama tíma þá skiptir viðureign HK og Fram í lokaumferðinni engu.

Akureyri mætir Val eftir viku.

Akureyri, eins og FH, sem er í öðru sæti getur enn helst úr lestinni og misst af sæti úrslitakeppninni takist ekki að vinna a.m.k. annan af tveimur leikjunum sem eftir eru.

FH getur enn orðið deildarmeistari en einnig endað í fimmta sæti. FH er tveimur stigum á eftir Haukum sem eru efstir. Vinni bæði lið í kvöld, en Haukar sækja Aftureldingu heim og FH fær HK í heimsókn, þá geta FH-inga tryggt sér deildarmeistaratitilinn með því að leggja Hauka á Ásvöllum eftir viku. Hafnarfjarðarliðin hafa unnið hvort sinn innbyrðis leikinn. Tapi FH hinsvegar stigi gegn HK í kvöld og Haukar vinna Aftureldingu þá verða Haukar deildarmeistarar áður en lokaumferðin fer fram. Möguleikarnir er margir og hér hefur aðeins verið tæpt á þeim helstu.