Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Íslensk stjórnvöld leggja það í hendur EFTA-dómstólsins að ákveða hvort meðalganga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) verði leyfð í Icesave-málinu. Þetta kemur fram í svari sem íslensk stjórnvöld sendu forseta EFTA-dómstólsins í gær.
Utanríkisráðuneytið segir svarið vera byggt á ráðgjöf Tims Ward, aðalmálflytjanda, og málflutningsteymisins sem skipað var honum til ráðgjafar. „Aðalmálflytjandinn og málflutningsteymið hafa fjallað ýtarlega um málið. Mörg sjónarmið komu þar til skoðunar en þegar til þess var litið að málflutningi framkvæmdastjórnarinnar yrði ekki á annan hátt svarað skriflega var það einróma niðurstaða þeirra að það þjónaði best hagsmunum Íslands að leggjast ekki gegn meðalgöngu hennar í málinu,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.
„Ég vissi nú bara um þetta þegar þetta kom í fréttum,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, þegar hún var spurð í RÚV í gærmorgun um hvenær hún hefði frétt af kröfu framkvæmdastjórnar ESB um meðalgöngu. Fram hefur komið að utanríkisráðuneytinu var tilkynnt um kröfuna með bréfi 27. mars s.l. Utanríkismálanefnd frétti einnig af málinu í fjölmiðlum 11. apríl.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði í samtali við mbl.is í gær að hann hefði gert ráð fyrir því að þingmenn fylgdust með málinu. Þá sagði hann sérstakar formlegar tengingar vera við ráðuneyti annarra ráðherra í gegnum málsvarnarteymið. „Ég taldi að það væri nóg,“ sagði Össur. Hann kvaðst hafa komið svari stjórnvalda til ríkisstjórnarinnar um leið og hann fékk það í hendur (aðfaranótt 12. apríl). Einnig kvaðst hann hafa átt frumkvæði að því að tala við formann utanríkismálanefndar um málið.
„Það ætti ekki að koma neinum á óvart að ESB hefur óskað eftir meðalgöngu í þessu máli,“ sagði Magnús Orri Schram, formaður þingflokks Samfylkingarinnar. Hann benti á orð Margrétar Einarsdóttur lektors í Morgunblaðinu í gær og Jóhannesar Karls Sveinssonar, eins lögmanna Íslendinga í málinu, í RÚV í gær. Þetta geri okkur kleift að svara skriflega með greinargerð.
„Það er sérstakt að menn sem vildu dómstólaleiðina skuli nú vakna upp við vondan draum þegar gagnaðilinn í málinu snýst til varnar,“ sagði Magnús Orri. Hann sagði að fyrir sér væru Icesave og ESB-umsóknin tvö aðskilin mál og ekki ætti að tengja þau saman. Icesave sé uppgjör við fortíðina, hrunið og afleiðingar þess. Umsóknin um ESB-aðild snúist um hvort þjóðin fái að taka afstöðu til samnings. „Hagsmunir Íslands snúast um að ná sem bestum samningi og leggja hann fyrir þjóðina,“ sagði Magnús Orri.
Hann sagði þingflokksfund Samfylkingarinnar í gær hafa verið „venjulegan“ fund þar sem farið var yfir stöðu þingmála og vikuna framundan. Beiðni framkvæmdastjórnar ESB um leyfi til meðalgöngu í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum var ekki rætt á þingflokksfundinum, að sögn Magnúsar Orra.
Aðkoma ESB
» Meginmunurinn á meðalgöngu og skriflegri greinargerð er að stjórnvöld munu geta svarað sérstaklega afstöðu sem fram kemur við meðalgöngu sem ekki er hægt þegar hún kemur eingöngu fram í skriflegri greinargerð.
» Stór hluti málsmeðferðar fyrir EFTA-dómstólnum er skriflegur. Munnlegur málflutningur er yfirleitt stuttur.
Vilja ræða stöðu viðræðna
• Bjarni telur málið gefa tilefni til endurskoðunar á aðildarviðræðunum
Skúli Hansen
skulih@mbl.is
„Það er algjörlega óásættanlegt að þingið sé ekki upplýst um svo stóra ákvörðun ESB og á við hér,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og bætir við: „Það sem mér finnst skipta mestu máli við þessa ákvörðun ESB er það að ESB tekur það fram í fyrsta skipti í þessu bréfi að það telji sig hafa beina hagsmuni af því með hvaða hætti dómur fellur í málinu,“ segir Bjarni og bendir á að fram til þessa hafi ESB sagt að það liti á málið sem tvíhliða deilu sem það hafi ekki ætlað að skipta sér að. „Mér finnst hann hafa gert rétt í því að viðurkenna að hann hafi gert mistök,“ segir Bjarni, aðspurður hvort hann telji að utanríkisráðherrann eigi að axla ábyrgð á því að hafa ekki upplýst þingheim um málið. Hann segir þetta fyrst og fremst vera klúður af hálfu ráðherrans. „Það er ekki hægt að bægja frá sér þeirri hugsun að utanríkisráðherrann hafi viljað halda þessu undir yfirborðinu til þess að skapa frið um ESB-viðræðurnar,“ segir Bjarni. Hann bendir einnig á að málið gefi tilefni til þess að fara yfir stöðuna í aðildarviðræðunum. „Það má segja að þetta tiltekna mál sé eitt í röð margra mála sem gefa tilefni til að fara yfir stöðuna í aðildarviðræðunum,“ segir Bjarni.
„Fjandsamleg aðgerð“
„Ég er þeirrar skoðunar að það hafi ekki verið nein ástæða til annars en að mótmæla aðkomu ESB,“ segir Birgir Ármansson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að andmæla ekki meðalgönguaðild ESB í Icesave-málinu. Að sögn Birgis er ljóst að pólitískar afleiðingar málsins eigi eftir að koma til umræðu á Alþingi enda liggi nú fyrir að ESB vilji gerast aðili að því máli sem ESA rekur nú gegn Íslandi. „Það er auðvitað fjandsamleg aðgerð af hálfu ESB,“ segir Birgir og bendir á að þetta sé í fyrsta skiptið sem ESB óski eftir slíkri aðild hjá EFTA-dómstólnum.Birgir segir það alvarlegt hvernig haldið hefur verið á þessu máli af hendi utanríkisráðherra hvað varðar samráð og upplýsingagjöf.
„Núna er hinsvegar staðan sú að við þurfum fyrst og fremst að ræða hvaða áhrif þessi aðgerð ESB hefur á gang aðildarviðræðna Íslendinga við það,“ segir Birgir og bætir við að hann sé sannfærður um það að þessi aðgerð ESB hafi orðið til þess að fjölga þeim inni á þingi sem vilja taka aðildarviðræðurnar til endurskoðunar.
„Á það hlýtur að reyna með einum eða öðrum hætti á næstu dögum,“ segir Birgir.