Póstur, sem flaug með hraða ljóssins um netheima í vikunni, þar sem rifjað er upp tveggja áratuga dómsmál gegn núverandi eiginmanni eins frambjóðanda til embættis forseta Íslands, hlýtur að missa marks, ef ætlunin var sú að draga úr möguleika viðkomandi...

Póstur, sem flaug með hraða ljóssins um netheima í vikunni, þar sem rifjað er upp tveggja áratuga dómsmál gegn núverandi eiginmanni eins frambjóðanda til embættis forseta Íslands, hlýtur að missa marks, ef ætlunin var sú að draga úr möguleika viðkomandi á því að komast til Bessastaða. Íslenska þjóðin lætur ekki bjóða sér hvaða rugl sem er.

Ekki veit ég hver sá til þess að rifja málið upp með þessum hætti og velti því ekki mikið fyrir mér. Vona þó heitt og innilega að hér hafi ekki verið um að ræða „alvöru“ innlegg í kosningabaráttuna að mati einhvers heldur glappaskot.

Ég þekki aðeins einn þeirra persónulega, sem bjóða sig nú fram til embættis forseta. Sá kunningsskapur er til kominn vegna starfs míns sem blaðamanns og rétt að taka fram að hér er ekki átt við Þóru Arnórsdóttur, sem þó er starfssystir mín. Enda skiptir ekki máli hvort ég eða aðrir kannist við eða þekki þá sem eru í framboði; allir eiga að njóta sannmælis, um þá á að fjalla af heiðarleika og sanngirni, svo fólk geti kosið á réttum forsendum.

Er rétt að álykta að kosningabaráttan hafi loks hafist fyrir alvöru með því að umræddum pósti var dreift?

Um er að ræða atvik frá árinu 1993; Svavari Halldórssyni, sem nú er eiginmaður Þóru Arnórsdóttur, lenti saman við annan mann á skemmtistað, var kærður og dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás. Svo virðist sem það hafi farið fyrir brjóstið á einhverjum að Svavari hafi ekki greitt miskabætur sem honum var gert að greiða.

Í yfirlýsingu sem Svavar sendi frá sér í vikunni, eftir að fjallað var um málið í DV, segir meðal annars: „Fyrir tæpum tuttugu árum urðu mér á mistök sem ég sé enn eftir. Mér lenti saman við jafnaldra minn eftir ball og braut í honum tvær tennur. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það sem ég gerði honum var verulega slæmt og eftirsjá mín er einlæg. Þetta er líklega það versta sem ég hef nokkurn tímann gert nokkrum manni á ævi minni.“ Síðan segir Svavar að leiðir þeirra tveggja hafi legið saman síðar og þeir sæst. „Mér er verulega hlýtt til þessa manns og ég er honum þakklátur fyrir hversu stórmannlega hann tók afsökun minni.“

Auðvitað líður Svavari Halldórssyni illa vegna þessa. Hver getur ekki sett sig í hans spor? En á atvikið eftir ballið að koma í veg fyrir að þjóðin fái velt því fyrir sér af sanngirni hvort Þóra Arnórsdóttir – og umræddur Svavar – eigi erindi á forsetasetrið?

Íslendingar eru upp til hópa nægilega greindir til þess að láta ekki slá ryki í augu sín með þessum hætti. Sumir frambjóðenda eru á móti ESB og aðrir með, aðrir kunna að teljast til vinstri í stjórnmálum og aðrir til hægri. Einhverjir kjósa með það í huga, sumum finnst annað skipta máli. En eitt er ljóst að birting bréfsins um Svavar, hafi því verið ætlað að skaða frambjóðandann, eiginkonu hans, var högg fyrir neðan beltisstað. skapti@mbl.is

Skapti Hallgrímsson

Höf.: Skapti Hallgrímsson