Haraldur Erlendsson, sérfræðingur í geðlækningum, hefur tekið við störfum yfirlæknis Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði. Hann útskrifaðist frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1985.

Haraldur Erlendsson, sérfræðingur í geðlækningum, hefur tekið við störfum yfirlæknis Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði. Hann útskrifaðist frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1985. Vann við afleysingar hjá NLFÍ í Hveragerði 1977-85, síðast sem læknir. Hann starfaði í fimm ár á Borgarspítalanum, m.a. við endurhæfingarlækningar á Grensásdeild, auk þes sem hann starfaði á tauga- og lyfjadeild.

Haraldur nam taugalækningar við Lundúnaháskóla árin 1991-1992. Eftir að hann kom heim starfaði Haraldur í fimm ár við heimilislækningar víða á landsbyggðinni. Hann var m.a. læknir á Flateyri þegar snjóflóðin féllu þar árið 1995. Í kjölfarið fór hann að kynna sér sálfræðilegar meðferðir við áföllum og leiddi það til náms í geðlækningum í Bretlandi.

Haraldur lauk meistaranámi í geðlækningum við Lundúnaháskóla árið 2001 og hefur starfað sem sérfræðingur í geðlækningum í Bretlandi síðan þá, m.a. á réttargeðdeildum. Haraldur er giftur Svanhildi Sigurðardóttur myndahöggvara. Þau eiga saman þrjú uppkomin börn.

„Áhugamál hans lúta m.a. að jóga og austrænni heimspeki, en einnig trúariðkun í austri og vestri. Hugsjón hans er að Heilsustofnun skuli veita bestu hefðbundna heilsuþjónustu sem völ er á, en að auki skuli þar ástunduð alhliða og heildræn heilsurækt í víðasta skilningi og að þar verði hægt að virkja manninn á öllum sviðum. Hann telur að dvöl á Heilsustofnun eigi að vera einstök og lífseflandi reynsla sem opni dvalargestum nýja lífssýn, geri þeim mögulegt að sigrast á innri vandamálum, leyfi þeim að gleðjast og njóta samveru,“ segir í fréttatilkynningu.

sbs@mbl.is