Magnús Björn Jónsson, sveitarstjóri á Skagaströnd, fæddist á Skagaströnd og ólst þar upp í foreldrahúsum. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1974, stundaði kennararéttindanám við Kennaraskóla Íslands 1980-82 og síðar stjórnunarnám Háskólans á Akureyri og Eyþings 2005-2006.
Þaulsætinn, vinsæll bæjarstjóri
Magnús stundaði sjómennsku og var í sumarvinnu við vegagerð á vinnuvélum 1969-85. Hann var kennari við Barnaskóla Sauðárkróks og Grunnskólann á Skagaströnd 1974-86, framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Hvítserks hf. 1985-88, starfsmaður Búnaðarbankans á Skagaströnd 1988-90 og hefur verið sveitarstjóri Höfðahrepps frá 1990.Einungis tveir núverandi sveitarstjórar á landinu hafa verið þaulsætnari en Magnús og bíða Skagstrendingar þess nú spenntir hvort hann eigi ekki eftir að slá metið.
Úr pólitík í embættismennsku
Magnús sat í hreppsnefnd Höfðahrepps 1982-2006 og er nú ópólitískur bæjarstjóri, sat í Héraðsnefnd og héraðsráði Austur-Húnavatssýslu 1990-2006, í námsstyrkjanefnd 1992-2012, var formaður Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum frá stofnun þeirra 1995-2007, sat í stjórn Skagstrendings 1994-2003, var varaþm. Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra 1995-1999 og hefur sinnt ýmsum stjórnunar- og trúnaðarstörfum á vegum sveitarfélaga.Magnús sat í stjórn Norðuráls bs. 2005-2012, í stjórn félags- og skólaþjónustu frá 1998-2012, hefur verið formaður stjórnar Lánasjóðs sveitarfélaga frá 2003 til dagsins í dag, sat í stjórn Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi 1992-96, var framkvæmdastjóri Byggingafélagsins Strandar ehf. 1991-96 og sat í stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra 1992-96. Þá hefur hann setið í ritnefnd Húnavökurits 1983-2012.
Revíuhöfundur kvenfélagsins
Magnús er mikill útivistarmaður og munar þar mest um hestamennskuna og samviskusamlega skíðaiðkun. Hann hefur haldið hesta um árabil, reynir að komast í hestaferðir á hverju ári og hefur yfirleitt farið í lengri eða skemmri hálendisferðir á hverju sumri í mörg ár. Þá hefur hann verið einkar duglegur við að kenna barnabörnunum á skíði á undanförnum árum. Hann er auk þess býsna laghentur ef á reynir og haldinn prýðilegu verksviti.Í hámenningarmálum hefur Magnús áhuga á sögu og bókmenntum en er þó líklega sterkastur á svellinu þegar kemur að leiklistinni. Hann nánast krefst þess að fá að koma að samningu skemmtiatriða þorrablóts Kvenfélagsins á Skagaströnd þó þar sé yfirleitt gert grimmt grín að sveitarstjórninni.
Þau hjónin eru nú í siglingu um Miðjarðarhafið í tilefni afmælisins.
Fjölskylda
Magnús kvæntist 26.12. 1977 Guðbjörgu Bryndísi Viggósdóttur, f. 1.4. 1954, húsmóður. Hún er dóttir Viggós Brynjólfssonar, f. 3.5. 1926, vinnuvélstjóra, og Arndísar Ólafar Arelíusdóttur, f. 19.10. 1936, húmóður.Börn Magnúsar og Guðbjargar eru Viggó Magnússon, f. 14.8. 1971, byggingatæknifræðingur, en kona hans er Magnea Ingigerður Harðardóttir, f. 21.6.1971, og eru dætur þeirra Telma Rán Viggósdóttir, f. 29.7. 1993, Glódís Perla Viggósdóttir, f. 27.6.1995, og Bára Bryndís Viggósdóttir, f. 20.11.1998; Baldur Magnússon, f. 3.8. 1974, sjómaður, en kona hans er Þórunn Valdís Rúnarsdóttir, f. 29.6.1980, og eru börn þeirra Magnús Sólberg, f. 26.11. 2003, Valdimar Viggó, f. 25.4. 2007, og Aþena Guðbjörg, f. 25.7. 2008; Jón Atli Magnússon, f. 29.7.1988, sölufulltrúi.
Systkini Magnúsar eru Fjóla Jónsdóttir, f. 10.10. 1947, búsett á Skagaströnd; Gunnar Jón Jónsson, f. 23.12. 1956, búsettur í Danmörku; Ragnar Hlynur Jónsson, f. 28.12. 1963, búsettur í Bandaríkjunum.
Foreldrar Magnúsar: Jón Jónsson, f. 21.5. 1921 í Asparvík í Strandasýslu, d. 9.7. 1991, verslunarmaður og framkvæmdastjóri Rækjuvinnslunnar á Skagaströnd, og María Magnúsdóttir, f. 1.5. 1919 á Syðra-Hóli í Vindhælishreppi, kennari og verslunarmaður.