Stuðningsmenn Feðginin Einar Guðlaugsson og Guðlaug, einu stuðningsmenn íslenska landsliðsins í Króatíu.
Stuðningsmenn Feðginin Einar Guðlaugsson og Guðlaug, einu stuðningsmenn íslenska landsliðsins í Króatíu. — Ljósmynd/Marlon Janicek
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Tveir Íslendingar, Einar Guðlaugsson og Guðlaug dóttir hans, fylgdu íslenska karlalandsliðinu í handbolta til Króatíu um páskana og vöktu mikla athygli enda leystu heimamenn feðginin út með gjöfum í Varazdin eftir síðasta leik liðsins í undankeppni fyrir Ólympíuleikana í London í sumar.

„Framkvæmdastjóri hallarinnar færði okkur gjafir, innrammaðar myndir og fleira, með þeim orðum að þeir vildu hafa þúsund stuðningsmenn eins og okkur þegar Króatía spilaði,“ segir Einar. Gjafirnar eru væntanlegar til landsins með DHL eftir helgi og þurfti Einar að borga um 300 evrur fyrir flutninginn, um 50 þúsund krónur. „Þetta var skemmtilegt og þess virði,“ segir hann. „Ég er frekar naut og tuddi en varð klökkur þegar við vorum verðlaunuð.“

Að sögn Einars hafði hann hugleitt í mörg ár að fylgja landsliðinu á stórmót en það hafi ekki orðið að veruleika fyrr en á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi 2007. Síðan hafi hann farið með fjölskyldumeðlimum eða tveimur vinum á öll stórmót með íslenska liðinu nema Ólympíuleikana í Peking 2008. „Þá ákvað ég frekar að borga upp bílaleiguna, leist orðið ekkert á ástandið í þjóðfélaginu,“ segir Einar en hann rekur einnig gistiheimilin Travel Inn í Reykjavík.

Sigurgleði og athyglissýki

Ánægjan sem fylgir sigrum er helsta ástæða þess að Einar sækir stórmótin með íslenska landsliðinu. „Ætli þetta sé ekki einhver athyglissýki líka,“ heldur hann áfram. „En ég gæti svo sem fylgt eftir íslenska landsliðinu í hestaíþróttum, vegna þess að því gengur vel. Einnig gæti ég elt íslenska kvennalandsliðið í fótbolta og kvennalandsliðið í handbolta er að koma til. Aðalatriðið er að geta reigt höfuðið og látið rigna upp í nefið, ganga þannig um á meðal hinna. Vera merktur og láta sjá að við erum Íslendingar.“

Einar segir að dæturnar hafi ekki komist á HM í Svíþjóð í fyrra og þá hafi þau ákveðið að heita á liðið, borga svo og svo mikið fyrir mörk og markvörslu. „Ég gerði upp við HSÍ fyrir áramót, um 183 þúsund krónur.“

Stundum hefur dæmið ekki gengið upp en Einar segir að þá þýði ekkert annað en að öskra meira og hvetja strákana til dáða. „Þegar við lékum við Slóvena á Evrópumótinu í Serbíu í vetur fór ég inn í hóp þeirra fyrir aftan Björgvin í markinu og þeir hnipptu aðeins í mig. Þá bauð ég þeim bara í krók, brosti og hló og þeir svöruðu á sömu lund.“

Ólympíuleikarnir eru næst á dagskrá. „Ekki er langt til London, en ég kemst í mesta lagi frá vinnu í þrjá daga þannig að ég get náð tveimur leikjum,“ segir Einar.