Í grænum sjó Frá lagningu FARICE-sæstrengsins við Seyðisfjörð.
Í grænum sjó Frá lagningu FARICE-sæstrengsins við Seyðisfjörð. — Morgunblaðið/Steinunn
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

„Hættan er sú að þetta setji mikla pressu á að menn virki allt sem hægt er að virkja ef við fáum svo stóran markað að hann geti í raun tekið endalaust við,“ segir Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, um hugmyndir Landsvirkjunar um að leggja sæstreng til Evrópu og selja þangað orku. Hörður Arnarson, forstjóri fyrirtækisins, sagði þetta vera stærsta viðskiptatækifæri sem Íslendingar stæðu frammi fyrir á ársfundi Landsvirkjunar á miðvikudag.

Guðmundur segir að ef af þessu yrði þyrfti að vera búið að kortleggja vandlega hvað ætti að virkja og hvað ekki. Sú umræða þyrfti að vera vandaðri en sú sem hefur átt sér stað um rammaáætlun svo að hinn raunverulegi vilji þjóðarinnar komi fram í þessum efnum.

Þá segist hann velta fyrir sér hversu mikil orka sé í spilunum til að flytja úr landi. Svo virðist sem það hafi verið að renna upp fyrir mönnum að virkjunarmöguleikar hafi verið ofmetnir á undanförnum árum og áætlanir hafi verið byggðar á litlum rannsóknum. Menn hafi til dæmis tekið inn í jökulsár sem mjög umdeilt væri að virkja

„Spurning er hvort við ætlum að eiga ósnortin jökulfljót eða nýta þau nær öll til raforkuframleiðslu? Ég held að það verði miklum vandkvæðum bundið að virkja mjög mikið til viðbótar, hvað þá að tvöfalda orkuframleiðslu á næstu 15 árum eins og Landsvirkjun hefur boðað.“

Auðlindirnar frekar nýttar hér

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir það meinalaust af sinni hálfu að kanna möguleika á að flytja út orku með sæstreng en hann líti ekki á það sem neitt forgangsmál.

„Ég hefði talið það forgangsverkefni í þessum efnum að sjá til þess að orkuauðlindir landsins væru nýttar til þess að auka tekjur og verðmætasköpun hér heima fyrir áður við horfum til þess að straumlaus stjórnvöld geri tilraun til að flytja út orku sem þau vilja ekki einu sinni búa til samkvæmt nýjustu drögum að rammaáætlun,“ segir Kristján Þór.

Þá segir hann að skoða þurfi hugsanlega áhrif útflutnings á orkuverð hér heima. Þar hljóti að þurfa að líta í reynslubanka Norðmanna af orkuútflutningi á erlendan markað en þar hafi orkuverð stórhækkað í kjölfarið.

„Ein spurning er undir hvaða skilmálum Landsvirkjun hefði heimild til að selja orku til almennings og fyrirtækja í ESB á öðru verði en til heimila og fyrirtækja á Íslandi. Þetta er atriði sem þarf að skoða,“ segir Kristján Þór.

Sæstrengur til Evrópu
» Áætlaður kostnaður við að leggja 700 MW sæstreng yfir hafið nemur á bilinu 251-335 milljörðum króna.
» Rannsóknir og framkvæmdir gætu tekið 6-7 ár.
» Hækkandi raforkuverð í Evrópu og grænir styrkir vegna umhverfismarkmiða ESB eru sagðir auka verðmæti íslenskrar orku.