Dennis Hedström
Dennis Hedström
Kristján Jónsson kris@mbl.is ,,Þetta er ótrúleg tilfinning. Þetta er í fyrsta skipti sem okkur tekst að vinna Serbíu og við gerðum það á heimavelli.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

,,Þetta er ótrúleg tilfinning. Þetta er í fyrsta skipti sem okkur tekst að vinna Serbíu og við gerðum það á heimavelli. Við erum komnir með tvo sigra og nú getum við sett stefnuna á að reyna að næla í verðlaun,“ sagði markvörðurinn snjalli, Dennis Hedström, þegar Morgunblaðið náði tali af honum þegar 5:3 sigurinn á Serbíu var í höfn í Skautahöllinni í gærkvöldi.

Útlitið var slæmt eftir sjö mínútna leik en þá var staðan 2:0 fyrir Serbíu en Dennis sagði að landsliðsmennirnir hafi ekki misst trúna á að þeir gætu unnið. „Ég hugsaði ekki um neitt annað en að við þyrftum að hrista þetta af okkur og vinna fyrir sigrinum. Við búum yfir ágætum hraða og að loknum fyrsta leikhluta þá vissum við að við gætum snúið leiknum okkur í hag. Við höfum sýnt að getan er fyrir hendi í liðinu. Við vorum mun hraðari en Serbarnir og sendingarnar voru einnig betri hjá okkur. Við þekkjum serbneska liðið eftir að hafa mætt þeim árið 2009 og við lærðum af þeim leik,“ sagði Dennis ennfremur en hann varði nokkrum sinnum frábærlega og á viðkvæmum augnablikum, t.d. þegar Ísland hafði skömmu áður náð forystunni 3:2. Hann stimplaði sig þannig vel inn í mótið því hann hafði nánast ekkert að gera í fyrsta leiknum á móti Nýja-Sjálandi.