Fjöldamótmæli Frá mótmælagöngu stjórnarandstæðinga í Homs.
Fjöldamótmæli Frá mótmælagöngu stjórnarandstæðinga í Homs.
Tugir þúsunda manna tóku þátt í mótmælum á götum borga í Sýrlandi í gær til að láta reyna á það hvort einræðisstjórn landsins virti friðaráætlun Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins og hætti árásum á óbreytta borgara.

Tugir þúsunda manna tóku þátt í mótmælum á götum borga í Sýrlandi í gær til að láta reyna á það hvort einræðisstjórn landsins virti friðaráætlun Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins og hætti árásum á óbreytta borgara. Stjórnarandstæðingar sögðu að öryggissveitir hefðu skotið á mótmælendur og nokkrir þeirra hefðu beðið bana.

Að sögn fréttastofunnar AFP lágu a.m.k. fimm óbreyttir borgarar í valnum eftir skotárásir öryggissveita. Daginn áður létu sjö óbreyttir borgarar lífið eftir að vopnahlé gekk í gildi fyrir tilstilli Kofis Annans, sérlegs erindreka Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins í málefnum Sýrlands. Mannfallið var þó miklu minna en síðustu vikurnar fyrir vopnahléið því árásirnar kostuðu þá yfirleitt tugi manna lífið á dag.

Efast um friðaráætlunina

Efnt var til mótmæla í tveimur hverfum Damaskus, tveimur nálægum bæjum og í borginni Homs. Mannréttindasamtök sögðu að tugir þúsunda manna hefðu tekið þátt í mótmælunum sem náðu hámarki eftir föstudagsbænir í moskunum. Öryggissveitir hleyptu af byssum upp í loftið til að dreifa mótmælendum, en stjórnarandstæðingar segja að nokkrir mótmælendur hafi beðið bana.

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, og fleiri vestrænir ráðamenn létu í ljósi efasemdir um að stjórn Sýrlands virti friðaráætlunina.