Jón Sigfús Gunnlaugsson fæddist 16. júlí 1921 í Bót, Hróarstungu. Hann lést á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum 31. mars 2012.

Foreldrar hans voru Hjálmar Gunnlaugur Eiríksson, f. 19. janúar 1888, d. 23.4. 1974 og Anna Bjarnheiður Sigfúsdóttir, f. 24. mars 1892, d. 4. júní 1942. Jón Sigfús ólst upp á Setbergi í Fellum frá 1922. Sigfús var þriðji í aldursröð systkinanna, Guðrún f. 9. maí 1918, d. 5. maí 1919, Ingólfur Eiríkur, f. 29. apríl 1920, d. 17. mars 1942, Haraldur, f. 29. janúar 1924, d 15. ágúst 1986, Bragi, f. 28. nóvember 1931. Seinni eiginkona Hjálmars Gunnlaugs var Anna Bjarnrún Jónsdóttir, f. 23.3. 1905, d. 7. september 1999 frá Hreiðarsstöðum, sonur þeirra er Jón Atli, f. 16. febrúar 1945.

Eftirlifandi eiginkona er Sigurrós Lára Guðmundsdóttir, f.16. júlí 1921 að Húnstöðum, Fljótum. Þau gengu í hjónaband 19. nóvember 1950. Börn þeirra eru: Anna f. 21. júní. 1951 Hennar sonur er Sigfús Fannar Stefánsson, fæddur 24. maí 1969, faðir Stefán Pétur Jónsson. Guðmundur, f. 4. september 1957. Maki Sveinbjörg Ólafsdóttir, f. 26. ágúst 1960. Börn þeirra eruHafþór Húni, f. 25. júní 1982, Lára, f. 25.6. 1984, maki Einar Már Einarsson, f. 2. maí 1979 og Freydís Selma, f. 15. desember 1992.

Sigfús var bóndi á Mælivöllum, Jökuldal 1952 til 1967 er þau flytja í Egilsstaði og hann fer að vinna hjá Brúnási hf. og síðar hjá Miðási ehf.

Útför hans fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 14. apríl 2012, og hefst athöfnin kl. 14.

Ég lít um öxl þegar þú, Fúsi frændi minn, kveður þennan heim og margar góðar minningar koma í hugann.

Árið 1952 skrifaði faðir minn í dagbók eftirfarandi: „Fúsi bróðir keypti í sumar hlut í jörðinni Hnefilsdal á Jökuldal (Mælivelli) og er nú byrjaður að búa og byggja þar ásamt konu sinni Láru Guðmundsdóttur frá Karlsá í Eyjafirði og Önnu litlu dóttur þeirra.“

Á Mælivöllum bjugguð þið, þú varst góður bóndi og dugnaðurinn nýttist þér vel. Þú þoldir ekki heyrykið og því selduð þið jörðina og fluttuð í Egilsstaði. Ég var sjö ára þegar þið fluttuð á Selásinn með viðkomu á Flúðum í nokkra daga. Ég man eftir þessum dögum, það var fullt af fólki og farangri að koma og fara. Þú stjórnaðir af röggsemi eins og þín var von og vísa.

Árið 1971 skrifaði faðir minn í dagbók sína: „Fúsi og Bói komu ríðandi á merum sínum. Við Ingólfur lögðum á Stiklu, Létti og Lipurtá (Yrpu) og fylgdum þeim austur á Flugvallarvegamót, höfðum þar hestaskipti. Þeir fóru með Lipurtá í tamningu, lögðum á hana hnakk og Fúsi teymdi hana undir Bóa en reið á Mósu, en ég tók Brúnku Fúsa og fór með hana hingað.“

Mikill samgangur var milli heimilanna og komuð þið oft til að hjálpa til við búskapinn á Flúðum og síðar Setbergi. Ég læt hugann reika og hugsa um haustdag á Setbergi. Það stendur mikið til, í dagrenningu er fénu hóað í hús, það á að láta lömb til slátrunar og meta ásetningslömbin. Á dögum sem þessum komst þú oft til aðstoðar. Það var eins og vottaði fyrir kvíða hjá bróður þínum, verðið þið sammála um búskapinn í dag. Það gustaði af ykkur Setbergsbræðrum á þessum árum en báðir sögðuð þið samferðamönnum skoðun ykkar hispurslaust án þess að draga neitt undan. Þú ráðlagðir föður mínum við búskapinn en hann er ekki alltaf tilbúinn að taka tilsögn. Ég held að undir hrjúfu yfirborðinu hafið þið verið vinir og borið virðingu hvor fyrir öðrum.

Einbeittur gekkstu að því eins og hverri annarri vinnu að halda þér í líkamlegu formi er aldurinn færðist yfir. Fórst dag hvern í sund og syntir bringusund og baksund með sundhettu, eins og þjálfaður íþróttamaður. Hjólaðir langt inn á Velli og sást síðan á kraftgöngu í íþróttagalla með göngustafi.

Nú er vík milli vina

vermir minningin hlýja.

Allra leiðir að lokum

liggja um vegi nýja.

Við förum til fljótsins breiða

fetum þar sama veginn.

Þangað sem bróðir bíður

á bakkanum hinum megin.

(Hákon Aðalsteinsson.)

Þakka þér samfylgdina, frændi minn.

Elsku Lára, Anna, Bói og fjölskyldur, ykkur votta ég samúð mína.

Anna H. Bragadóttir.