Ég hitti karlinn á Laugaveginum á horninu við Smiðjustíg. Hann var að koma að norðan: „Veðrið er gott á Akureyri,“ sagði hann. „Það er annað en fyrir vestan!

Ég hitti karlinn á Laugaveginum á horninu við Smiðjustíg. Hann var að koma að norðan: „Veðrið er gott á Akureyri,“ sagði hann. „Það er annað en fyrir vestan!“ og fór fyrir mig með vísu eftir Hjálmar Freysteinsson, sem hann hafði lært af Leirnum á þriðjudaginn:

Á Vestfjörðum er veðrið enn

versti ófögnuður.

Á Ísafirði eru menn

sem aldrei koma suður.

„Oh, ég held það væsi ekki um þá,“ sagði karlinn og sleikti út um:

Sjósiginn bútung og mörflot með

matinn veit ég bestan;

kæstan hákarl hef ég séð

í hjöllunum fyrir vestan.

Og leit upp til himins – og væri eftir honum að segja eins og Sigfús Blöndal:

Svo eftir endaðan

ævinnar vetur

húrra ég til himnaríkis,

heilsa upp á Pétur;

vona að blessunin

vel til mín geri

og gefi mér harðfisk,

já, harðfisk með sméri.

Jón Bjarnason alþingismaður fæddist í Asparvík á Ströndum. Hann var skólastjóri Bændaskólans á Hólum, en fór í prófkjör hjá Samfylkingunni fyrir alþingiskosningarnar 1999 en fékk ekki stuðning, svo að hann bauð sig fram fyrir vinstri græna og náði kjöri:

Útfallið í Asparvík

hreif eitt sinn sprek með skegg og kraga,

rótlaust sprek í rauðri flík;

það rak á fjörur Tröllaskaga.

Um svipað leyti var ort um Einar Odd Kristjánsson:

Sé ég út af látrum loddur,

lóminn kafa, skrækja ritur.

Fyrir vestan Einar Oddur

einn að kjötkötlunum situr.

Atli Heimir Sveinsson tónskáld bað mig um vísur í þing-rapp, sem hann var að semja:

Er þeir sparka orðknöttum

inn í mark hjá hver öðrum

eftir þjark í þingsölum

þá er harka í sendingum.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is