Gunnar Bragi Sveinsson
Gunnar Bragi Sveinsson
Eftir Gunnar Braga Sveinsson: "Með ólíkindum verður að teljast ef VG ætlar enn og aftur að lyppast niður fyrir fótum Evrópusambandsins og Samfylkingarinnar"

Framkvæmdastjórn Evrópusambandins (ESB) sýnir Íslendingum þann hroka að gerast aðili að dæmalausu máli Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), þrátt fyrir að viðræður um aðild að ESB séu í gangi. Framkvæmdastjórnin hefði alls ekki þurft að gera þetta því einstök ríki hafa fulla heimild til að óska efir aðild að málinu til stuðnings kröfu ESA eða til að styðja málstað Íslendinga. Líklegt verður að teljast að ein af ástæðum þess að ESB fer þessa leið sé hræðsla við að eitthvert ESB-ríki styðji málstað Íslendinga. Eftir þetta er erfiðara fyrir ríki Evrópusambandsins að taka upp hanskann fyrir Ísland gegn framkvæmdastjórninni. Þá er augljóst að ESB er að sýna Íslendingum hver það er sem ræður og eyjarskeggjar eigi að hafa sig hæga.

Ráðherrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna (VG) ásamt formanni utanríkismálanefndar keppast nú við að gera lítið úr málinu. Með ólíkindum verður að teljast ef VG ætlar enn og aftur að lyppast niður fyrir fótum Evrópusambandsins og Samfylkingarinnar til þess eins að halda vonlausu stjórnarsamstarfi áfram.

Hin meinta andstaða VG við Evrópusambandið minnir á söguna „Úlfur, úlfur“. Þingmenn og ráðherrar VG keppast við að mótmæla viðræðunum og framgöngu ESB, þeir kalla „Úlfur, úlfur“ en gleyma því að í ævintýrinu át úlfurinn þann sem plataði fólkið því fólkið kom honum ekki til bjargar þegar úlfurinn raunverulega kom. Þannig er saga VG varðandi ESB og þannig mun ævintýrið enda haldi þingmenn og ráðherrar þessu áfram.

Eini möguleiki VG til að öðlast einhvern trúverðugleika er að krefjast þess að viðræðum verði nú þegar hætt. Harðorðar greinar eða blogg gagnast ekkert þegar öllum er ljóst að VG hefur það í hendi sér að segja hingað og ekki lengra. Þráin eftir völdum og góðum stólum við stjórnarborðið er loforðum gagnvart kjósendum yfirsterkari og því mun VG ekki styggja Samfylkinguna.

Meðan þetta er ritað er ég þess fullviss að fulltrúar ESB, Samfylkingar og VG eru að bera saman bækur sínar, hvernig best sé að láta þessa uppákomu ekki hafa áhrif á aðildarviðræðurnar. Mér sýnist plottið vera það að hluti hópsins muni segja að ákvörðun ESB komi ekki á óvart, að það sé eðlilegt að framkvæmdastjórnin blandi sér í málið og það hafi engin áhrif á viðræðurnar. Hinn hópurinn eigi að gagnrýna ákvörðun ESB án þess að einhver alvara sé þar að baki. Þannig fái allir eitthvað en viðræðurnar geti haldið áfram.

Danski stjórnmálamaðurinn Mogens Glistrup sagði eitt sinn að varnarstefna Danmerkur ætti að vera sú að leggja niður herinn og koma upp sjálfvirkri símsvörun sem segði á rússnesku: „Við gefumst upp.“ Ríkisstjórn Samfylkingar og VG virðist hafa þessa stefnu gagnvart ESB. Á símsvara hennar er töluð þýska og franska.

Höfundur er formaður þingflokks framsóknarmanna.

Höf.: Gunnar Braga Sveinsson