Valdís Magnúsdóttir fæddist á Hellissandi 23. maí 1931. Valdís lést á Landspítalanum við Hringbraut 3. apríl 2012.
Foreldrar Valdísar voru Kristín Oddsdóttir og Magnús Hjartarson, Hellisandi. Valdís var einkabarn þeirra hjóna en átti hálfsystur, Kristínu Skúladóttur, sem er látin. Móðir Valdísar hafði átt Kristínu áður en hafði misst unnusta sinn Skúla Rögnvaldsson af slysförum.
Valdís giftist Sigurði Kristjónssyni útgerðarmanni 25. desember 1958. Börn Valdísar og Sigurðar eru: Kristín Magnea Sigurðardóttir f. 28 júní 1952 og Sigurður Valdimar Sigurðsson f. 30. mars 1961. Kristín Magnea er gift Svanbirni Stefánssyni og eiga þau þrjú börn: Sigurð Magnús f. 1973, hann á tvo syni, Valdísi f. 1976, hún á þrjá syni og Dröfn f. 1983, hún á eina dóttur.
Sigurður Valdimar er giftur Kristínu Björk Marísdóttur og eiga þau fjögur börn: Leu Hrund f. 1980, hún á tvær dætur og tvo syni, Sif f. 1981, hún á eina dóttur, Magnús Darra f. 1991 og Gils Þorra f. 1992.
Útför Valdísar fer fram frá Ingjaldshólskirkju í dag, 14. apríl 2012, og hefst kl. 11.
Elsku amma hefur kvatt okkur eftir mikla og hetjulega baráttu, hún tókst á við veikindin sín af miklu æðruleysi. Okkur langar að minnast hennar með örfáum góðum orðum og vel völdum minningum. Það var alltaf gaman að fara til ömmu í kaffi og spjalla um daginn og veginn og var alltaf stutt í hláturinn og skopskynið hjá henni. Hún hafði sérstaklega mikið skopskyn fyrir sjálfri sér, gerði óspart grín að sér. Hún var brosmild, skemmtileg og einkar hreinskiptin kona. Þegar við settumst niður og fórum að rifja upp minningarnar þá situr margt skemmtilegt eftir. Þegar mamma fór aftur til vinnu eftir að Gils sá yngsti fæddist tók amma að sér að passa hann þangað til hann komst á leikskóla, og þótti ömmu einstaklega gaman að gefa honum að borða þar sem hann var svo mikið matargat. Hún var mikil barnagæla og gladdist hún alltaf þegar við systurnar komum með börnin okkar í heimsókn. Þá laumaði hún oft einum kandísmola til þeirra.
Við vorum alltaf með henni og afa um jól og áramót. Jólin byrjuðu alltaf þannig að við systkinin fórum á Lionshappadrættið með miðana sem afi keypti fyrir okkur og enduðum svo á Munaðarhólnum hjá ömmu í skötuveislu, en þegar skatan var komin í magann þá máttu jólin koma. Við mamma og systkinin fórum í messu með afa á aðfangadag á meðan pabbi og amma lögðu lokahönd á jólamatinn. Á jóladag fórum við svo alltaf á Munaðarhólinn í svínakótelettur í raspi. Þar var setið frameftir, spjallað og spilaður manni eða kani. Amma hafði einstaklega gaman af því að spila og var mikið hlegið. Amma var mikil félagsvera og hafði gaman af því að hafa fólk í kringum sig. Það eru ein jól sem sitja sérstaklega föst í minni okkar en það var þegar amma og afi ákváðu að vera á Kanaríeyjum um jól og áramót. Það voru ansi skrítin jól, því í okkar huga voru ekki jól nema komast til ömmu og afa í skötuveislu og kótelettur, þeirra var sárt saknað.
Í gegnum ömmu og afa fengum við systkinin að kynnast matargerð fyrri tíma, sem telst frekar óhefðbundinn matur nú til dags en vert er að nefna skötuna, vélindun, sviðin, hrogn og lifur, kúttmagana og rúllupylsuna. Einnig má nefna hinar ógleymanlegu rúsínukökur, loftkökunar og randalínuna góðu.
Það var mikil hefð að taka slátur og fengum við systur að taka þátt í því. Við erum þakklát ömmu fyrir að kynna okkur þessar gömlu hefðir og munum við reyna að halda í þær. Einnig fórum við alltaf saman í hina árlegu fjölskylduveiðiferð í Miðá í Dölum og höfum við gert það frá því við munum eftir okkur. Þó amma sjálf væri ekki mikil veiðikona þá fylgdi hún afa veiðimanni alltaf og beið mjög spennt eftir að sjá hver afli dagsins var. Einnig sá hún til þess þegar heim var komið eftir langan dag að matur væri á borðum.
Það var aðdáunarvert að sjá hvernig amma barðist allt til síðasta dags, við söknum þín amma og elskum þig. Við viljum biðja Guð að styrkja elsku afa, klettinn hennar ömmu, í sorginni en hann er búinn að standa sig eins og hetja í baráttunni með ömmu. Við erum stolt af þér, afi. Hvíldu í friði, elsku amma.
Lea Hrund, Sif, Magnús Darri og Gils Þorri.
Valdís var sterk og svipmikil kona sem bjó yfir sérstakri fegurð. Hún giftist sómamanni og öðlingi þar sem Sigurður var. Hann vildi allt fyrir hana gera. Þau voru sérlega samrýmd, góðir vinir og félagar. Þau fóru í sólarlandaferðir tvisvar á ári, sem alltaf var mikið tilhlökkunarefni hjá þeim. Þau fóru saman í laxveiði og unnu saman við rekstur útgerðarinnar. Þau voru óaðskiljanleg.
Valdís missti móður sína þegar hún var innan við tvítugt sem var mikið áfall fyrir unga stúlku. Móðir mín Sveinsína, móðursystir Valdísar, reyndist henni þá mjög vel og var Valdís oft mikið hjá Sínu eins og hún var ávallt kölluð. Það má segja að hún hafi komið henni í móðurstað þegar á reyndi. Sama má segja um móður mína. Valdís fyllti tómarúmið í tilveru hennar eftir að ég, einkadóttirin, fór ung til Bandaríkjanna. Með þeim skapaðist mikill kærleikur sem entist alla ævi og dvaldi móðir mín oft hjá þeim í góðu yfirlæti. Þær fóru til dæmis saman í berjamó á haustin í dásamlegu berjalautirnar undir Jökli.
Ég mun alltaf vera þakklát fyrir kærleika og umhyggju þína gagnvart móður minni í fjarveru minni. Þú varst trygg vinum þínum.
Ég lagði í kistuna þína lítinn fallegan rauðan vorlauk úr garðinum hennar mömmu á Hlíðarveginum sem hún ræktaði sjálf á meðan hún var á lífi. Hann kíkti einn upp úr moldinni á undan öllum hinum og blómstraði daginn fyrir kistulagninguna. Það var sem ábending um tilgang hans. Mér fannst það því viðeigandi. Elsku Dídí, þetta var kveðja frá mömmu til þín.
Ég þakka að endingu fyrir allar góðu stundirnar með þér, elsku Valdís. Hvenær sem mann bar að garði, oft á tíðum óvænt, var borinn fram heitur matur, heimagerð rúllupylsa, berjasaft, heimabakstur og reyktur lax sem Siggi hafði veitt. Það var alltaf nóg til í búrinu þínu.
Við hjónin fórum í eina slíka veiðiferð með Sigga og Dídí fyrir þremur árum, í Miðá í Dalasýslu, og vorum þar í nokkra daga. Það var skemmtileg ferð sem við munum aldrei gleyma. Við Valdís hugsuðum um matinn og möluðum allan daginn á meðan karlarnir drógu laxinn á land. Þetta eru góðar minningar.
Elsku Siggi og fjölskylda, megi guð varðveita ykkur og gefa ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.
Sigríður Lúthersdóttir, Sveinn Þórðarson
og fjölskylda.
Ég vil í örfáum orðum minnast minnar kæru frænku Valdísar Magnúsdóttur sem lést á Landspítala – háskólasjúkrahúsi hinn 3. apríl sl.
Ég á mjög kærar minningar frá heimili hennar en þar var ég tekinn strax sem einn af fjölskyldunni þegar ég dvaldi þar sem unglingur. Það sem var einkennandi í fari Valdísar var hreinskilni og hispursleysi.
Hún var ákaflega hjálpsöm kona, enda átti hún ekki langt að sækja það því að Magnús Hjartarson faðir hennar var ákaflega greiðvikinn og hjálpsamur maður og var alltaf mjög náið og kærleiksríkt samband á milli þeirra.
Valdís stóð reyndar aldrei ein með annan eins mann og Sigurð eiginmann sinn sér við hlið, enda voru þau hjónin einstaklega samhent í öllu því sem þau tóku sér fyrir hendur.
Árum saman stundaði Sigurður sjómennsku og var langdvölum að heiman og varð Valdís þá að vera bæði húsmóðir og húsbóndi á heimilinu.
Það er sárt að sjá á bak góðri og ástríkri eiginkonu, elskulegri og umhyggjusamri móður, tengdamóður, ömmu og langömmu.
Með þessum fátæklegu orðum kveð ég Valdísi frænku mína, þakka henni fyrir samveruna og allt sem hún gerði fyrir mig og mína.
Megi algóður Guð vaka yfir fjölskyldu Valdísar.
Hvíli hún í friði.
Guðmundur Kr. Þórðarson.