— Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.is Leiðakerfi Strætó hefur oft mátt sæta gagnrýni, nú síðast eftir að Strætó bs. var gert að skera niður rekstrarkostnað um 25% árið 2009 og hagræða enn frekar árið 2011.

Fréttaskýring

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Leiðakerfi Strætó hefur oft mátt sæta gagnrýni, nú síðast eftir að Strætó bs. var gert að skera niður rekstrarkostnað um 25% árið 2009 og hagræða enn frekar árið 2011. Notendur Strætó segja margir að vagnarnir byrji að ganga of seint um helgar og gangi ekki nógu lengi fram eftir á virkum dögum. Stjórnendur fyrirtækisins segja hins vegar von á talsverðri þjónustuaukningu en á næstunni verður undirritaður samningur milli ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, þess efnis að ríkið leggi um milljarð króna á ári til reksturs almenningssamganga næstu tíu árin. Sveitarfélögin skuldbinda sig á móti til þess að draga ekki úr núverandi framlagi til almenningssamgangna.

Meginmarkmið samningsins er að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna í ferðum á höfuðborgarsvæðinu, úr 4-5% í 8-10%, en hann mun einnig fela í sér þá breytingu að 140 milljóna króna endurgreiðsla ríkisins vegna olíugjalda verður afnumin í þrepum á næstu þremur árum. Samningurinn felur einnig í sér að á tímabilinu, 2012-2022, verði stærri samgöngumannvirkjaframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu slegið á frest. Þá verður unnið að eflingu forgangsaksturs Strætó í samvinnu við Vegagerðina og umhverfissjónarmið höfð að leiðarljósi þegar bætt verður við vagnaflota Strætó.

Framlag ríkisins til Strætó bs. árið 2012 mun samkvæmt samningnum nema 350 milljónum og verður þeim fjármunum, ásamt auknum framlögum frá sveitarfélögunum, m.a. varið í að bæta úr þeirri þjónustuskerðingu sem varð í kjölfar niðurskurðar 2009 og 2011 og gott betur. Frá og með hausti mun akstur hefjast fyrr á morgnana um helgar og standa lengur fram eftir á virkum dögum, á flestum leiðum til kl. 24 en til kl. 1 eftir miðnætti á stofnleiðum.

Komast ekki heim úr bíó

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, formaður stjórnar Strætó bs., segir umræðuna um þjónustuskerðinguna ekki hafa farið fram hjá stjórnendum fyrirtækisins og að stytting aksturstímans hafi komið sérstaklega illa við þá sem stóli á strætó sem sinn aðal-ferðamáta.

„Þetta snýr t.d. að stofnunum á borð við Landspítalann, þar sem unnið er á vöktum. Við hins vegar eigum nákvæmar tölur um fjölda farþega og það kom í ljós að á síðasta klukkutímanum sem við vorum að keyra á Landspítalasvæðinu þá voru fimm farþegar sem stigu inn og út úr vagninum á þessum klukkutíma. Og þegar það er gerð krafa um hagræðingu þá bitnar hún á þessum tímum,“ segir Guðrún.

Hún nefnir annað dæmi: að Strætó hafi borist ábendingar um að unglingar gætu ekki nýtt sér strætisvagna til að komast heim úr bíó á kvöldin, þar sem vagnarnir væru hættir að ganga þegar bíósýningum lyki. Stjórnin og stjórnendur Strætó hafi verið sammála að úr þessu þyrfti að bæta en til þess hafi vantað fjármagn.

Auk þess að lengja þjónustutímann stendur til að lengja svokallaðan vetraraksturstíma um tvær vikur, eina að vori og aðra að hausti, og fjölga vögnum á álagstímum í sumar. Guðrún nefnir leið 1 sem dæmi en hún muni ekki taka upp sumartíma heldur keyra áfram eftir vetraráætlun. Þá verður ein breyting gerð á leiðakerfinu en leið 21, sem sumir kenna við Ikea, verður lengd þannig að vagnarnir keyra inn í Mjóddina en ekki einvörðungu innan Hafnafjarðar eins og nú er.

Guðrún segir að af þeim milljarði, sem ríkið muni greiða til Strætó bs. árlega, muni 900 milljónum verða varið í rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. „Síðan hefur verið talað um að 100 milljónir fari í rekstur á áhrifasvæði Strætó bs. á suðvesturhorninu, t.d. tengingarnar upp á Akranes, á Reykjanes og austur á Selfoss,“ segir Guðrún.

Strætó til höfuðs bíls númer 2

Guðrún segir ánægjulegt að Strætó bs. sjái sér nú fært að efla þjónustuna við notendur strætisvagnanna en segir þó ljóst að aldrei verði hægt að koma til móts við alla. Þjónusta Strætó sé sérstaklega mikilvæg þeim sem eiga ekki kost á að reka bíl en miði ekki síður að því að gera fjölskyldum kleift að komast af með einn slíkan.

„Við erum ekki síður að horfa til þess að hver fjölskylda þurfi þá a.m.k. ekki bíl númer tvö, hvað þá númer þrjú; að Strætó sé áreiðanlegur farkostur sem fjölskyldan getur notfært sér til að komast í leik og starf,“ segir Guðrún.

Hún ítrekar að hluti þjónustuaukningarinnar hafi þegar verið ákveðinn af stjórn Strætó bs. en annað sé háð því að samningurinn milli ríkis og sveitarfélaganna verði undirritaður.

TÍU ÁRA ÁÆTLUN STRÆTÓ

Skoða sveigjanlegt leiðakerfi

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., segir að unnið sé að mótun tíu ára stefnu fyrirtækisins en í þeirri vinnu hafa ýmsar spennandi hugmyndir verið til skoðunar, t.d. svokallað sveigjanlegt leiðakerfi.

„Fólk spyr af hverju við keyrum stóra vagna á kvöldin þegar farþegar eru fáir. Svarið er að við verðum að eiga þá hvort sem er til að aka á háannatíma og það væri ekki hagkvæmt fyrir okkur að fjárfesta í minni bifreiðum. Það sem er mögulegt hins vegar er að samnýta ferðir á jaðartímum á jaðarsvæðum,“ segir Reynir. Slíkt kerfi myndi þó kalla á að ýmis ferðaþjónusta, s.s. ferðaþjónusta fatlaðra og aldraðra, yrði færð undir nýja þjónustueiningu sem myndi jafnframt eiga samstarf við leigubílastöðvarnar.

„Við myndum þá aka farþegum þegar þeir þurfa á þjónustunni að halda; þú hringir eftir bíl og þá kemur leigubíll, skólabíll eða bíll frá ferðaþjónustu fatlaðra eða aldraðra að sækja þig. Bíll sem er á svipaðri leið en fer smá-útúrdúr til að sækja þig. Þá nýtast bæði ökutækin og ferðirnar betur,“ segir Reynir en viðurkennir að þjónustan myndi kosta meira en strætóferð. Sé pólitískur vilji fyrir hendi væri hægt að taka upp slíkt kerfi eftir um fimm ár.

Útilokað að fresta framkvæmdum

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir það harðlega að samningurinn milli ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu feli í sér að öllum meiriháttar samgönguframkvæmdum verði slegið á frest næstu tíu árin.

„Kynning á samkomulaginu hefur gengið út á að það sé verið að efla almenningssamgöngur og setja fjármagn sérstaklega til þess verkefnis og það er auðvitað mjög jákvætt og gott að verið sé að auka stuðning við þær. En það þarf líka að koma fram að á sama tíma er búið að slá samgöngumannvirkjagerð á höfuðborgarsvæðinu út af borðinu þar til 2022,“ segir Júlíus.

Markmiðið með samkomulaginu er m.a. að auka notkun almenningssamgangna a.m.k. tvöfalt og segir Júlíus hugsunina á bakvið fyrirkomulagið þá að ef fólk nýti sér almenningssamgöngur í auknum mæli, dragi það úr þörfinni fyrir samgöngumannvirkjagerð. Dæmið gangi þó ekki upp.

„Íbúum á höfuðborgarsvæðinu mun t.d. fjölga um 17 þúsund á þessu tímabili og þannig mun engu að síður verða aukning í umferðarkerfinu. Bættar almenningssamgöngur koma ekki í staðinn fyrir byggingu umferðarmannvirkja,“ segir Júlíus.

Hann segir höfuðborgarsvæðið aðeins hafa fengið um 10% af framkvæmdafé til vegamála undanfarin ár og að með samningnum verði það hlutfall ekki bara fest heldur veitt til annarra verka. Þá telur hann útilokað að slá á frest framkvæmdum sem tengjast gatnakerfum sem liggja að Landspítala.

„Árið 2017 er gert ráð fyrir að 97 þúsund fm bygging muni rísa við Landspítalann og það er alveg ljóst að það mun kalla á gífurlega aukningu umferðar um svæðið. Og það er óábyrgt að reikna ekki með framkvæmdum því tengdum.“

Slegið á frest

» Hringvegur – mislæg gatnamót við Hallsveg/Úlfarsfellsveg, Korpúlfsstaðabraut og Skarhólabraut.

» Hringvegur – mislæg gatnamót við Breiðholtsbraut og Norðlingaholt.

» Hafnarfjarðarvegur – mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut – breikkanir.

» Reykjanesbraut – breikkanir sunnan Breiðholtsbrautar – mislæg gatnamót við Bústaðav.

» Nesbraut – stokkalausn frá Lönguhlíð að Stakkahlíð.

» Hlíðarfótur – göng undir Öskjuhlíð.

» Ofanbyggðavegur.

» Vífilsstaðavegur.

» Höfðabakki – breikkun hluta Stekkjarbakka.

» Hallsvegur – milli Víkurvegar og Vesturlandsvegar.

» Sundabraut – nýr vegur frá Sæbraut að Hringvegi á Kjalarnesi.