Guðmundur Magnússon
Guðmundur Magnússon
Eftir Guðmund Magnússon: "Mín skoðun er sú, að hér hafi hulinn verndarkraftur verið að verki í lífi Páls og vísað honum, systkinum hans og móður til þeirrar gæfu að bjarga lífi hátt á fimmta tug manna í neyð."

Með heimildarmyndinni um afrek mæðginanna á Veturhúsum í janúar 1942 er skráður nýr og stórmerkilegur kafli í sögu hernámsins eystra. Loksins, loksins eftir 70 ár fær fólkið á Veturhúsum viðurkenningu og þakklæti frá bresku þjóðinni fyrir að bjarga 48 hermönnum úr bráðum lífsháska þessa örlaganótt. Fyrir okkur, sem lifðum þessa tíma og þekkjum allar aðstæður, er myndin eins konar himnasending, lifandi lýsing á atburðum, sem við höfum þekkt frá upphafi þeirra.

Ég hef þekkt Magnús Pálsson frá æskudögum okkar eystra. Hann er hógvær maður og leggur áherslu á það, að Páll bróðir hans hafi verið hetja næturinnar og víst er það rétt. Páll var vel gerður til líkama og sálar eins og Veturhúsasystkinin öll. Magnús aðeins 15 ára, þreyttur eftir daglangt starf við uppskipun á kolum og salti, gengur fumlaust út í sortann við hlið bróður síns og vinnur alla nóttina við björgunarstörfin. Slíkum manni er ekki fisjað saman. Hér sýndi þessi ungi maður bæði andlegt og líkamlegt þrek. Það var alsiða til sveita hér áður fyrr að hafa ljós í glugga, ef einhver kynni að vera á ferðinni og veður öll válynd. Þótt fráleitt þætti, að nokkur mannvera væri á ferðinni í þessu aftakaveðri, ákvað móðirin, Þorbjörg Kjartansdóttir, að hafa ljós í herbergi sínu og lýsti inn til heiðarinnar. Það var happasæl ákvörðun. Þá er það þáttur Páls. Hvers vegna unni hann sér ekki hvíldar fyrr en hann væri búinn að huga að dyrum útihúsanna? Tilviljun, segja menn. Gott og vel. Tilviljun á réttum tíma, á réttum stað. Hér var úrslitastundin runnin upp. Á þessu augnabliki voru örlög ensku hermannanna í höndum Páls, hvorki meira né minna.

Mín skoðun er sú, að hér hafi hulinn verndarkraftur verið að verki í lífi Páls og vísað honum, systkinum hans og móður til þeirrar gæfu að bjarga lífi hátt á fimmta tug manna í neyð.

Fyrir utan þátttöku Magnúsar í myndinni, en hann skilaði sínu hlutverki með prýði, var það einstakur happafengur að fá enska hermanninn, Ron Davies, við töku myndarinnar að ógleymdum dagbókum hans, sem eru frábærar heimildir frá dvöl hans á Reyðarfirði stríðsáranna. Þökk sé öllum aðstandendum myndarinnar, þeim Sturlu Pálssyni og félögum hans og Þorsteini J. og samstarfsmönnum hans. Með þessari mynd ásamt rituðum samtímaheimildum Bergþóru og Magnúsar Pálsbarna er gulltryggt, að hetjudáðir fólksins á Veturhúsum örlaganóttina 20. janúar 1942 falla ekki í gleymskunnar dá. Nú eru það ekki bara við fyrir austan, sem vitum um þennan atburð, nú veit öll þjóðin það – og var kominn tími til.

Höfundur er fyrrverandi fræðslustjóri Austurlands.

Höf.: Guðmund Magnússon