Þrátt fyrir að meðalgengi erlendra gjaldmiðla hafi hækkað á milli fimm og sex prósent gagnvart íslensku krónunni á síðustu tólf mánuðum þá hafa helstu hækkunarliðir neysluverðsvísitölunnar á sama tíma verið innlendir.

Þrátt fyrir að meðalgengi erlendra gjaldmiðla hafi hækkað á milli fimm og sex prósent gagnvart íslensku krónunni á síðustu tólf mánuðum þá hafa helstu hækkunarliðir neysluverðsvísitölunnar á sama tíma verið innlendir. Þetta kemur fram í Vísbendingu, vikuriti um viðskipti og efnahagsmál, en þar segir að í ljósi þess að tólf mánaða verðbólga á EES-svæðinu er 2,9%, borið saman við 6,4% á Íslandi, þá hefði mátt ætla að erlendar vörur hefðu hækkað um 8,5%. Reyndin sé hins vegar önnur.

Þótt hækkun á bensínverði, sem má rekja að stærstum hluta til verðhækkana erlendis, hafi verið um 13% á undanförnum tólf mánuðum þá hefur sú hækkun verið meiri í prósentum talið erlendis en sem nemur hækkuninni á Íslandi.

Það vekur aftur á móti athygli, segir í grein Vísbendingar, hvaða liðir hækka mest fyrir utan bensínið. Opinber þjónusta hækkaði um 11,1%, búvörur um 9% og þjónusta almennt um 7,4%. Helstu hækkunarliðirnir eru því allir innlendir og er hækkunin umfram það sem tólf mánaða verðbólga mældist yfir sama tímabil. Með öðrum orðum virðist verðbólgan því ekki vera innflutt, eins og svo oft áður, heldur fremur beinlínis upprunnin á Íslandi.

Vísbending bendir ennfremur á að það veki sérstaka athygli að erlendar mat- og drykkjarvörur hafa ekki hækkað á síðastliðnu ári sem neinu nemur. Þetta þýðir því að erlendir birgjar, innflytjendur og smásalar, hafa tekið á sig þá 8-9% hækkun sem hefði að öðrum kosti átt að falla á neytendur ef aðeins er litið á veikingu krónunnar og erlendar verðhækkanir. hordur@mbl.is