Sá hluti vefsíðu breska ríkisútvarpsins, BBC, sem snýr að mat er skemmtilegur og fræðandi fyrir matgæðinga. Þar er að finna ótal uppskriftir, hægt að fylgja eftir sínum uppáhaldskokkum sem maður sér í sjónvarpinu og fá góð ráð.
Þarna má t.d. finna tilvalda helgaruppskrift að kardimommu- og sítrónusmákökum. Það er jú alltaf dálítið gott að baka eitthvað á helgarmorgnum og eiga nýbakað með kaffinu yfir daginn. Ef þig vantar síðan hugmynd að einhverju í kvöldmatinn er að finna nóg af uppskriftum á vefsíðunni. Írskar, indverskar, portúgalskar eða afrískar, uppskriftirnar eru svo sannarlega frá öllum heimsálfum og skemmtilegt að smakka sig í gegnum ólík krydd og aðferðir við eldamennsku. Á vefsíðunni er líka að finna blogg með skemmtilegum matarsögum og tilraunum frá kokkum.