Réttarhöld hófust í Glostrup í Danmörku í gær yfir fjórum karlmönnun, sem ákærðir eru fyrir að hafa undirbúið hryðjuverkaárás í Danmörku í desember árið 2010.
Mennirnir neituðu allir sök. Þrír þeirra, Sahbi Ben Mohamed Zalouti, Munir Awad og Omar Abdalla Aboelazm, eru allir sænskir ríkisborgarar en upprunnir í Túnis, Líbanon og Marokkó. Sá fjórði, Mounir Ben Mohamed Dhahri, er Túnisi með dvalarleyfi í Svíþjóð.
Saksóknarar segja, að mennirnir hafi áformað að ráðast inn á ritstjórnarskrifstofur blaðsins Jyllands-Posten við Ráðhústorgið í Kaupmannahöfn og drepa þar eins marga og þeir gætu, bæði með því að skjóta þá og skera á háls. Þannig ætluðu þeir að hefna fyrir, að blaðið birti skopmyndir af Múhameð spámanni haustið 2005.
Þrír mannanna voru handteknir í íbúð í Herlev, úthverfi Kaupmannahafnar, 29. desember 2010 en þeir höfðu nóttina áður ekið frá Svíþjóð. Í fórum þeirra fundust vélbyssa með hljóðdeyfi, skammbyssa, 108 byssukúlur, plaststrimlar sem átti að nota til að binda starfsmenn blaðsins og jafnvirði nærri 2,5 milljóna króna í dollaraseðlum. Danska öryggislögreglan hafði í samvinnu við þá sænsku fylgst með mönnunum í nokkra mánuði og hlerað samtöl þeirra.
Fjórði maðurinn var handtekinn í Svíþjóð og síðar framseldur til Kaupmannahafnar. Hann upplýsti í réttarsalnum, að hann hefði ekið með hinum þremur frá Stokkhólmi áleiðis til Danmerkur en farið úr bílnum í Jönköping.
Tengsl við Pakistan
Henrik Plæhn, saksóknari, sagði í réttarsalnum í gær, að líklega hafi mennirnir ætlað að láta til skarar skríða í samkvæmi, sem haldið var til að fagna því að Jyllands-Posten fékk sérstaka viðurkenningu fyrir íþróttafréttir. Friðrik krónprins var meðal gesta í samkvæminu en ekki er talið að fjórmenningarnir hafi vitað það.
Plæhn sagði einnig, að vísbendingar væru um að lagt hefði verið á ráðin um árásina í Pakistan. Sagðist hann myndu veita nánari upplýsingar um það síðar í réttarhöldunum, sem munu væntanlega standa yfir fram í júní.
gummi@mbl.is