Situr Ólöf Helga Pálsdóttir í hörðum slag í öðrum leiknum gegn Haukum.
Situr Ólöf Helga Pálsdóttir í hörðum slag í öðrum leiknum gegn Haukum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ólafur Már Þórisson omt@mbl.is Njarðvík og Haukar mætast í fjórða sinn í dag en liðin berjast um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik kvenna. Haukar minnkuðu muninn í síðasta leik með góðum sigri á útivelli en staðan er nú 2:1.

Ólafur Már Þórisson

omt@mbl.is

Njarðvík og Haukar mætast í fjórða sinn í dag en liðin berjast um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik kvenna. Haukar minnkuðu muninn í síðasta leik með góðum sigri á útivelli en staðan er nú 2:1. Það lið sem fyrr nær þremur vinningum hampar titlinum eftirsótta og Njarðvík getur því orðið Íslandsmeistari í fyrsta skipti í dag, takist liðinu að innbyrða sigur á Ásvöllum í Hafnarfirði.

Vinni Haukar, fer hinsvegar fram hreinn úrslitaleikur um titilinn í Njarðvík á þriðjudagskvöldið kemur.

Tveir af leikjunum þremur hafa verið jafnir og spennandi og segir Ólöf Helga Pálsdóttir, leikmaður Njarðvíkur, að eftirvæntingin sé mikil. „Við erum allar mjög spenntar. Okkur fannst eins og við hefðum átt að vinna síðast en við lærum bara af mistökunum og komum vel stemmdar.“

Skiptir ekki miklu máli hvar er spilað

Bæði lið hafa sýnt það í þessu einvígi að þau geta vel unnið á útivelli. Ólöf segir það þó ekki skipta miklu máli hvar leikirnir fara fram. „Við spáum mjög lítið í því hvort að við séum á úti- eða heimavelli. Það fer allt eftir því hvernig við komum stemmdar til leiks. Við þurfum að ná upp sömu vörn og í öðrum leiknum og í byrjun síðasta leiks. Við gáfum hinsvegar eftir þegar leið á leikinn en það má ekki gerast. Vörnin þarf að vera eins og hún gerist best gegn góðu liði Hauka.“

Hún sagði að liðið þyrfti jafnframt að loka betur á Tierny Jenkins sem tók hvorki fleiri né færri en 29 fráköst síðast þegar liðin mættust.

Um fátt annað talað í Njarðvík

Um fátt annað er talað í Njarðvík en þetta úrslitaeinvígi að sögn Ólafar. Það er ef til vill ekki að ástæðulausu þar sem Njarðvík myndi í fyrsta skipti lyfta Íslandsmeistarabikarnum á loft í meistaraflokki kvenna.

„Við unnum okkar fyrsta titil í bikarúrslitunum fyrr í vetur og það yrði enn skemmtilegra að klára tímabilið með því að lyfta tveimur bikurum. Til þess þurfum við hinsvegar að koma vel stemmdar til leiks þar sem Haukar eru með mjög sterkt lið.“

Leikur liðanna hefst í Njarðvík klukkan 16 og verður fylgst með gangi mála á mbl.is.