Agnes M. Sigurðardóttir
Agnes M. Sigurðardóttir
Eftir Agnesi M. Sigurðardóttur: "Þjóðkirkjan er öllum opin og innan hennar rúmast allir"

„Hann er ekki prestur, hann er karl,“ sagði fjögurra ára gamallt sóknarbarn mitt fyrir 20 árum þegar mamma hans sussaði á hann. Hann sat með móður sinni á „opnu húsi“ á vegum sóknarkirkju sinnar en þar talaði prestur sem er karlmaður. Hann hafði fæðst stuttu eftir að ég kom sem sóknarprestur í sveitina hans og þekkti engan annan prest en mig. Hann hélt því að allir prestar væru konur.

Fyrirmyndir skipta miklu máli í uppeldi barna því börn halda að alls staðar sé allt eins og hjá þeim. Þau eru þó ekki gömul þegar þau átta sig á því að svo er ekki. Þess vegna verður að taka meðvitaða stefnu í uppeldi barna sem og í lífinu almennt.

Þjóðkirkjan hefur mótað sér stefnu í mörgum málum. Eitt af þeim er jafnrétti. Jafnréttisstefna Þjóðkirkjunnar er byggð á boðskap Jesú Krists og á að stuðla að jafnrétti, sem er í samræmi við líf og boðskap hans. Jafnframt tekur jafnréttisstefnan mið af þeim jafnréttislögum sem gilda hér á landi sem og því að Þjóðkirkjan er aðili að kirkjulegum samtökum á heimsvísu.

Markmið jafnréttisstefnunnar er skýrt, en það er „að stuðla að jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla í þjóðkirkjunni og jöfnum möguleikum kynjanna til starfa, áhrifa og þjónustu.“ Það hefur því verið tekin meðvituð stefna um að jafna hlut kynjanna. Innan kirkjunnar hefur það tíðkast um aldir að bæði kynin væru í þjónustu hennar. Í guðspjöllunum má sjá að konur tóku sér sæti lærisveinsins eins og María sem sat við fætur Jesú og samverska konan sem ræddi við Jesú. Á fyrstu dögum kirkjunnar var sjónarmið jafnréttis kynjanna ríkjandi eins og Páll postuli getur um í Galatabréfinu: „Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.“

Konur hafa alltaf þjónað í kirkjunni, en sagan sýnir okkur að karlar hafa gegnt áhrifa- og valdastöðunum. Það eru ekki nema tæp 40 ár síðan fyrsta konan vígðist til prests hér á landi og nú eru kvenkyns prestar um þriðjungur prestastéttarinnar.

Spyrja má hvort nauðsynlegt sé að vinna að jöfnum rétti karla og kvenna innan kirkjunnar? Það er nú svo að helmingur mannkyns er konur og hinn helmingurinn karlar. Konur og karlar hafa oftar en ekki ólíka sýn á hlutina. Það er því nauðsynlegt að bæði kynin þjóni í kirkjunni og leiði hana. Þannig er kirkjan betur í stakk búin til að nálgast alla á jafnréttisgrundvelli og veita þjónustu enda er Þjóðkirkjan öllum opin og innan hennar rúmast allir. Það er einnig nauðsynlegt að hin ungu hafi fyrirmyndir í uppvexti sínum sem minna á jafna möguleika beggja kynja til að fylgja eftir hæfileikum sínum og áhuga. Kirkjan vill vera leiðandi í því að jafna stöðu kynjanna og bæta möguleika beggja kynja á mótun kirkju og samfélags.

Höfundur er sóknarprestur í Bolungarvík, prófastur í Vestfjarðaprófastsdæmi og frambjóðandi til embættis biskups Íslands.

Höf.: Agnesi M. Sigurðardóttur