[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Misheppnað eldflaugarskot Norður-Kóreumanna í fyrrakvöld er álitið auðmýking fyrir einræðisstjórnina í Pjongjang, einkum nýjan leiðtoga hennar, Kim Jong-Un.

Fréttaskýring

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Misheppnað eldflaugarskot Norður-Kóreumanna í fyrrakvöld er álitið auðmýking fyrir einræðisstjórnina í Pjongjang, einkum nýjan leiðtoga hennar, Kim Jong-Un. Talið er nánast öruggt að hún reyni að bjarga andlitinu með því að sprengja kjarnorkusprengju í tilraunaskyni.

Eldflaugarskotið átti að vera hápunktur hátíðahalda í Norður-Kóreu í tilefni af því að á morgun verða hundrað ár liðin frá fæðingu Kims Il-Sungs, fyrsta leiðtoga kommúnistaríkisins og afa núverandi leiðtoga. Eldflaugarskotið átti að gefa stjórninni tækifæri til að hreykja sér af „tæknilegum afrekum“ og styrkja jafnframt nýja leiðtogann í sessi. Sérfræðingar í málefnum Norður-Kóreu telja að eldflaugarklúðrið sé mikið áfall fyrir Kim Jong-Un sem þurfi að sanna að hann sé hæfur til að stjórna landinu eftir að hafa erft völdin frá föður sínum. „Hann þurfti á vel heppnuðu eldflaugarskoti að halda,“ sagði Toshimitsu Shigemura, prófessor við Waseda-háskóla í Tókýó. „Kim Jong-Un og hinir ráðamennirnir þurfa að bæta þetta upp með einhverjum hætti, annaðhvort með því að sjá fólki fyrir mat eða húsnæði. Þeir þurfa að gera ráðstafanir til að sýna að þeir hafi afrekað eitthvað.“

Marcus Noland, bandarískur sérfræðingur í málefnum Norður-Kóreu, telur óhjákvæmilegt að ráðamennirnir í Pjongjang bregðist við klúðrinu með því að sprengja kjarnorkusprengju neðanjarðar í tilraunaskyni, eins og á árunum 2006 og 2009. „Fyrir eldflaugarskotið var líklegt að Norður-Kóreumenn gerðu þriðju kjarnorkutilraunina; núna er það nánast öruggt,“ segir Noland í grein á vefsíðu Peterson Institute for International Economics.

„Heimskulegur klaufaskapur“

Noland segir að eldflaugarklúðrið sé „næstversta mögulega niðurstaða“ fyrir N-Kóreumenn. „Sú versta væri ef eldflaug þeirra lenti í Kína... Með einu höggi hafa Norður-Kóreumenn ekki aðeins ögrað öryggisráði SÞ, Bandaríkjunum og jafnvel bandamönnum sínum í Kína, heldur sýnt heimskulegan klaufaskap.“

Einræðisstjórnin hafði boðið allt að 200 erlendum blaðamönnum að fylgjast með eldflaugarskotinu og hátíðarhöldunum í tilefni af fæðingarafmæli Kims fyrsta. Málgögn stjórnarinnar viðurkenndu að eldflaugarskotið hefði misheppnast, enda er talið að hún hefði ekki getað haldið því leyndu.

Talið er að Norður-Kóreumenn eigi sex til átta kjarnorkusprengjur með plútoni og séu að vinna að sprengju með úrani.

Fréttaskýrendur Financial Times segja að óttast sé að Norður-Kóreumenn þurfi aðeins eina kjarnorkutilraun í viðbót til að geta búið til kjarnaodd í langdræga eldflaug. Norður-Kóreumenn hafi þegar sannað að þeir hafi þróað eldflaug sem geti dregið tæpa 4.000 kílómetra. Það hefur ýtt undir vangaveltur um að þeir gætu jafnvel skotið eldflaug á vesturhluta Bandaríkjanna.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum og grannríkjum Norður-Kóreu fordæmdu eldflaugarskotið, sögðu það brot á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og stefna friði á Kóreuskaga í hættu. Kínverska stjórnin kvaðst hafa orðið fyrir vonbrigðum með þá ákvörðun Norður-Kóreumanna að skjóta eldflauginni á loft.

VALDASKIPTUM LOKIÐ

Í öllum æðstu embættunum

Kim Jong-Un, leiðtogi N-Kóreu, fór fyrir embættismönnum sem tóku þátt í minningarathöfn um afa hans, Kim Il-Sung, í miðborg Pjongjang í gær. Skýrt var frá því að leiðtoginn hefði verið kjörinn „fyrsti formaður“ Landvarnaráðsins, valdamestu stofnunar landsins. Hann hefur þar með fengið öll æðstu embætti ríkisins, kommúnistaflokksins og hersins.