Helgi Haukur Hauksson
Helgi Haukur Hauksson
Eftir Helga Hauk Hauksson: "Eins og oft áður þegar umræða sem þessi fer af stað virðist sem aðalatriðin hverfi og sjónir manna fara að beinast að hlutum sem virðast oft úr lausu lofti gripnir."

Undanfarna daga hefur átt sér stað umræða í fjölmiðlum sem snúist hefur um útflutning og verðlagningu á dilkakjöti í Noregi. Upphaf umræðunnar má rekja til orða Guðna Ölverssonar á facebook-síðu hans um verðlagningu á dilkakjöti í Noregi þar sem hann staðhæfir að hann hafi keypt lambalæri á rúmlega 1.000 kr. íslenskar kílóið. Þakkar hann jafnframt íslenskum skattgreiðendum verðlagninguna á kjötinu í viðtali á Bylgjunni hinn 10. apríl og lætur að því liggja að íslenskir skattgreiðendur greiði í stórum stíl niður kjöt fyrir norskan markað. Reyndar var kílóverðið 58 krónur norskar sem liggur nær 1.300 íslenskum, auk þess sem verðið var tilboðsverð.

Staðreyndin er sú að útflutningsbætur voru afnumdar árið 1992 og er því lambakjöt ekki greitt sérstaklega niður fyrir erlenda markaði. Í gildi eru búvörusamningar milli bænda og ríkisvaldsins sem eru ákveðinn grunnur að sauðfjárframleiðslu í landinu og á þeim forsendum er bændum greiddur stuðningur til framleiðslunnar. Hvergi er kveðið á um í þeim samningum sérstaka niðurgreiðslu á útfluttum sauðfjárafurðum. Stuðningur við íslenska sauðfjárrækt fer eftir ákveðnum reglum en er ekki tengdur framleiðslu. Heildargreiðslur til greinarinnar breytast ekki þótt framleiðsla aukist eða minnki.

Langmestur hluti framleiðslunnar fór á innanlandsmarkað á síðasta ári eða um 5.443 tonn af lambakjöti auk annars kindakjöts. Þær sauðfjárafurðir sem ekki eru afsettar á innanlandsmarkaði eru seldur til útflutnings sem á síðasta ári skapaði um 3,3 milljarða króna í gjaldeyristekjur til handa þjóðarbúinu í heild sinni. Tekjurnar voru 16% meiri en árið 2010, þrátt fyrir minni kjötútflutning, en gott verð fékkst fyrir gærur og ýmsar aðrar afurðir. Útflutningsverð (FOB) á lambakjöti í heilum skrokkum frá Íslandi til Noregs er um 1.000 kr. kílóið. Verðlagning á smásölumörkuðum í Noregi er á höndum aðila þar ytra.

Ef staðreyndin er sú að hægt hafi verið að fá lambakjöt á því verði sem Guðni Ölversson heldur fram að hann hafi keypt lambalærið á er sú verðlagning á ábyrgð REMA 1000 og má þá einfaldlega spyrja sig hvort ekki sé verið að selja kjötið á undirverði, sem er ekki á valdi íslenskra bænda eða afurðastöðva að stjórna.

Eins og oft áður þegar umræða sem þessi fer af stað virðist sem aðalatriðin hverfi og sjónir manna fara að beinast að hlutum sem virðast oft úr lausu lofti gripnir. Þó að það megi segja að einhver hluti þeirrar framleiðslu sem er seld á erlenda markaði sé studd með opinberum framlögum frá ríkisvaldinu eru þau matvæli sem flutt eru hingað til lands það líka, þótt sá stuðningur komi ekki frá íslenskum stjórnvöldum. Það er nefnilega staðreynd að landbúnaður er studdur ýmist með beinum fjárframlögum eða í formi tollverndar í flestum löndum heims. Skattgreiðendur í öðrum löndum greiða þannig niður matvæli handa okkur Íslendingum og virðist það þykja sjálfsagt mál af okkar hendi, en þegar við flytjum út matvæli virðist oft sem íslenskir skattgreiðendur vilji ekki taka þátt í hinni stóru keðju matvælaframleiðslunnar á heimsvísu. Er sannleikurinn sá að við viljum aðeins þiggja en ekki gefa? Ekki verður þeirri spurningu svarað hér og nú en eitt er víst, að í samfélagi siðmenntaðra þjóða getum við Íslendingar ekki látið þannig að við séum ekki að þiggja ríkisstuðning annarra þjóðríkja þegar við förum út í búð og kaupum í matinn þótt við viljum ekki láta af hendi part af okkar framleiðslu á erlenda markaði.

Höfundur er formaður Samtaka ungra bænda.

Höf.: Helga Hauk Hauksson