Aðaldalsflugvöllur Aðstæður þar þykja mjög heppilegar því aðflug er óhindrað bæði úr norðri og suðri.
Aðaldalsflugvöllur Aðstæður þar þykja mjög heppilegar því aðflug er óhindrað bæði úr norðri og suðri. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðar
Heimir Snær Guðmundsson heimirs@mbl.is Flugfélagið Ernir mun í sumar vera með beint flug til Húsavíkur fjóra daga vikunnar. Áætlanaflug hefst á morgun, síðast var flogið beint til Húsavíkur árið 2000.

Heimir Snær Guðmundsson

heimirs@mbl.is

Flugfélagið Ernir mun í sumar vera með beint flug til Húsavíkur fjóra daga vikunnar. Áætlanaflug hefst á morgun, síðast var flogið beint til Húsavíkur árið 2000. Mýflug hætti flugi til Húsavíkur árið 2000 eftir að hafa haldið uppi ferðum í tvö ár. Þrettán ár eru síðan Flugfélag Íslands hætti að fljúga til Húsavíkur. Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri segir þessa ákvörðun skipta Norðurþing miklu máli og íbúa fagna fréttunum.

„Annarsvegar einfaldar þetta aðgengi ferðamanna að svæðinu og hinsvegar heimamanna að höfuðborgarsvæðinu. Þetta styttir ferðina til Reykjavíkur um tæpar þrjár klukkustundir.“ Bergur sér mikil sóknarfæri með þessum tíðindum, „Hingað kemur mikill fjöldi ferðamanna, innlendir sem og erlendir, og ferðaþjónustuaðilar bíða spenntir.“ Flogið verður sjö sinnum í viku, tvisvar á þriðjudögum, fimmtudögum og föstudögum en einu sinni á sunnudögum. Ásgeir Örn Þorsteinsson hjá Erni segir mikinn áhuga vera á beinu flugi til Húsavíkur.

„Viðtökurnar eru betri en við þorðum að vona. Við erum í sambandi við erlendar ferðaskrifstofur og erum þegar byrjaðir að selja ferðir til erlendra ferðamanna,“ segir Ásgeir. Áætlunarflugið byrjar á morgun og mun standa út september. Um mitt sumar verður tilkynnt um hvort framhald verði á. „Um sumarið verða farþegar ferðamenn að stórum hluta en til að þetta geti gengið upp og orðið heilsársáætlun byggist þetta á því að heimamenn notfæri sér þjónustuna.“ Ernir hefur þegar farið eina ferð með hóp ferðaþjónustuaðila og að sögn Ásgeirs eru aðstæður mjög góðar á Aðaldalsflugvelli. Ásgeir segir að Ernir muni notast við sömu gerð flugvéla og þeir noti t.a.m. við flug sitt til Vestmannaeyja. „Flugvélarnar sem við notum eru mjög farþegavænar, þær eru af gerðinni Jetstream 32 og eru 19 sæta skrúfuþotur. Þær eru búnar jafnþrýstibúnaði og fljúga þá ofar flestum veðrum.“ segir Ásgeir. Ernir bjóða fólki að mæta á flugvöllinn á Húsavík á morgun. Von er á að fyrstu vélinni kl. 15.45.