Á leið á miðin Mörg uppsjávarskipanna eru þessa dagana á kolmunnaveiðum í grennd við Færeyjar, en makrílvertíð hefst eftir um tvo mánuði.
Á leið á miðin Mörg uppsjávarskipanna eru þessa dagana á kolmunnaveiðum í grennd við Færeyjar, en makrílvertíð hefst eftir um tvo mánuði. — Ljósmynd/Börkur Kjartansson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á reglugerð um makrílveiðar ársins, sem reikna má með að hefjist eftir um tvo mánuði. Heildarkvótinn verður rúmlega 145 þúsund tonn og fara 105.

Fréttaskýring

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á reglugerð um makrílveiðar ársins, sem reikna má með að hefjist eftir um tvo mánuði. Heildarkvótinn verður rúmlega 145 þúsund tonn og fara 105.057 lestir til uppsjávarskipa með aflareynslu árin 2007-2009 og 31.259 tonn til vinnsluskipa, sem stunduðu þessar veiðar í fyrra. Þessir flokkar eru lokaðir, en allir fjórir flokkar skipa á makrílveiðum sæta hlutfallslegri skerðingu frá síðasta ári, en þá var kvótinn um tíu þúsund tonnum meiri.

Hvað vinnsluskipin varðar er nú miðað við stærð skipanna, en í fyrra var m.a. miðað við frystigetu um borð. Langflest þeirra eru á bilinu 800-2400 lestir að stærð. Þessi flokkur er nú lokaður eins og áður sagði.

Í hlut skipa sem ísa makrílaflann um borð koma 8.066 tonn og um 80% af þeim afla fara til skipa sem eru yfir 200 tonnum að stærð. 1500 tonn voru í ár flutt frá bátum sem stunda veiðarnar með línu eða handfærum til ísfiskskipanna. Í hlut minni bátanna koma nú 845 lestir, en smábátarnir lönduðu í fyrra aðeins rúmlega 300 tonnum. Aflahæsti báturinn landaði rúmlega 64 tonnum og komu níu bátar með meira en tíu tonn að landi.

Frá og með 25. ágúst er vinnsluskipum og uppsjávarskipum heimilt að flytja heimildir milli allra skipa ef þau eru í sama flokki og hafa uppfyllt 50% veiðiskyldu. Einnig er ráðherra heimilt að leyfa flutning milli flokka ef sýnt þykir að aflaheimildir nýtist ekki með öðrum hætti.

Eins og áður er lögð áhersla á vinnslu aflans og er skylt er að ráðstafa mánaðarlega 70% af makrílafla einstakra skipa til vinnslu.

ÚTBREIÐSLAN KÖNNUÐ SÍÐSUMARS

Makríll hefur sést í vetur

Hafrannsóknastofnun ráðgerir síðsumarsleiðangur til rannsókna á útbreiðslu makríls. Um samvinnuverkefni Íslendinga, Færeyinga og Norðmanna er að ræða og er að svo stöddu reiknað með einu rannsóknaskipi frá hverri þjóð. Tvö síðustu sumur hefur um 1,1 milljón tonna af makríl mælst innan íslenskrar lögsögu. Í fyrrasumar gekk hann lengra vestur á bóginn en áður.

Makríll hrygnir á tímabilinu frá janúar og fram í júní, frá ströndum Portúgals og allt norður í Norðursjó, og gengur síðan hratt norður á bóginn í ætisleit. Í eggjaleiðangri vorið 2010 kom í ljós að hrygning átti sér stað í íslenskri lögsögu. Næst verður farið í sambærilegan eggjaleiðangur vorið 2013.

Í vetur hafa borist fréttir um að ungur makríll hafi komið í veiðarfæri og þá einkum í hlýrri sjó frá suðausturmiðum og vestur undir Snæfellsnes. Mest af þessum makríl er úr hrygningunni sumarið 2010 og 2011, en makríllinn vex mjög hratt fyrsta árið og ársgamall er hann oft 18-20 sentimetrar. Í togararallinu sem nýlega er lokið varð vart við makríl á fyrrnefndu svæði.