Kristinn Hjálmarsson
Kristinn Hjálmarsson
Eftir Kristin Hjálmarsson: "Upplýsum fólk sem raunverulega borðar sjávarfangið okkar um sjálfbærar veiðar Íslands, við stórfenglegar aðstæður, norðan við flest sem fólk þekkir."

Á Íslandi og umhverfis Ísland er allt fullt af mat. Landið er fullt af þekkingu og orku til að sækja fisk í hafið og vinna úr honum hollar, næringarríkar og verðmætar kræsingar.

Á Íslandi er sjávarútvegur arðbær atvinnugrein, sem þýðir að greinin getur staðið undir eigin vexti, endurnýjun og fjárfestingum. En til samanburðar þá styrkir Evrópusambandið sjávarútveg aðildarlanda sinna, m.a. til úreldingar á skipum og tæknilegrar aðstoðar.

Ímynd á erlendum mörkuðum

Á Íslandi er fiskveiðistjórnunarkerfið sett saman til að auka arðsemi greinarinnar og til að tryggja endurnýjun fiskistofnanna. Mögulega þarf að endurskoða og lagfæra það hvernig fiskveiðistjórnuninni er háttað. En það má alls ekki henda barninu út með baðvatninu. Núverandi ríkisstjórn er að leggja fram þriðja frumvarpið á nokkrum mánuðum um breytingar á fiskveiðistjórnun á Íslandi. Ríkisstjórnin lýsti því yfir í stjórnarsáttmálanum að breytingar yrðu gerðar á kerfinu. Síðan þá hefur starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja legið í láginni því eigendur fyrirtækjanna vita ekki hvernig rekstrarskilyrðin verða undir nýrri fiskveiðistjórnunarlöggjöf.

Á Íslandi er ríkisstjórnin, meðal annars, að reyna að finna leið til að fjármagna rekstur ríkisins með auknu framlagi úr greininni. Í nýju frumvarpi er lagt til að greinin leggi rekstri ríkisins til stóran hluta af hagnaði sínum, jafnvel allan hagnaðinn – meira en allan hagnaðinn.

Á Íslandi hefur þetta gengið svona í þrjú ár. Óvissa. Afleiðingarnar eru þær að fjárfesting í sjávarútvegi hefur verið lítil – fjármagnið fer því ekki af stað út úr fyrirtækjunum í uppbyggingu í greininni sjálfri með tilheyrandi sköpun starfa. Önnur afleiðing er sú að íslenskum sjávarafurðum er ekki sköpuð ímynd á erlendum mörkuðum. Það kostar líka fé og fyrirhöfn að styrkja ímynd sína meðal neytenda, þeirra sem rölta í gegnum stórmarkaðina í Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi, Bandaríkjunum eða á Spáni og velta fyrir sér kvöldmatnum.

Hverjir borða fiskinn?

Fiskurinn sem við veiðum við Ísland er ekki matreiddur og borðaður á Íslandi. Það gera fjölskyldur og fólk á veitingastöðum annars staðar í Evrópu, Ameríku, Asíu og Afríku. Umræðan um það hvernig sjávarútvegurinn á Íslandi getur skilað meiru í rekstur ríkisins fer fram á röngum forsendum. Umræðan minnir helst á það að stjórnendur fyrirtækis, í þessu tilviki ríkisins, takist á um hvernig sameiginlegur kostnaður við rekstur fyrirtækisins (ríkisins) skuli borinn með gjaldfærslu þess kostnaðar á verksmiðjuna (þegnana) en ekki hvernig skuli afla mestu teknanna (útflutningstekna landsmanna). Rekstur slíks fyrirtækis er í röngum höndum, byggður á röngum forsendum. Tekjur félagsins verða að byggjast á ánægðum kaupendum sem standa undir kostnaði við reksturinn. Ef okkur tekst vel til við markaðssetningu, þá fáum við aukna eftirspurn eftir íslenskri framleiðslu. Þess vegna eru auglýsingar milli þátta í sjónvarpinu, í korter í bíó áður en myndin byrjar, á hverri síðu á netinu og prentmiðlum – til að selja ímynd og vöru.

Ímynd íslenskra sjávarafurða mótast af hreinleika hafsins í kringum landið, stórfenglegum aðstæðum. Á Íslandi er kaldur ferskleiki. Við erum ekki að vinna markvisst að því að auka vitund fólks sem raunverulega borðar sjávarfangið okkar, um sjálfbærar veiðar Íslendinga, í hreinum sjó við stórfenglegar aðstæður, norðan við flest sem fólk þekkir. Við ættum að vera að einbeita okkur að því að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða meðal þeirra sem borða fisk. Einn erlendur kaupandi gerði góðlátlegt grín að íslenskum markaðsaðferðum, sagði okkur minna á víkinga sem stíga á land í mörgum litlum, skipulagslausum hópum.

Aukin verðmæti

Í Noregi vinna stjórnvöld og sjávarútvegurinn saman. Þar var stofnsett útflutningsráð fyrir norskar sjávarafurðir árið 1991. Ráðið er nú orðið að fyrirtæki og þar vinna 50 manns um allan heim við að greina markaðina, skilja markaðina og miðla þeim upplýsingum heim til Noregs, þar sem sjávarútvegurinn framleiðir vöru í samræmi við þarfir markaða. Norskur sjávarútvegur fjármagnar eigin markaðssetningu en norska ráðið hafði um átta milljarða íslenskra króna árið 2011 til að markaðssetja ímynd norskra sjávarafurða og auka verðmæti þeirra. Enda halda margir neytendur á okkar mörkuðum, að hollar sjávarafurðir komi eingöngu frá Noregi. Markaðssetningin er fjármögnuð af greininni sjálfri og yfirlýst markmið ber vott um kjark. Markmiðið er „strengthen the value of Norwegian seafood“ og hvorki meira né minna en „win the world over to Norwegian seafood“.

Á Íslandi er tekist á um aðferðafræðina við að endurúthluta verðmætunum. Í Noregi er haldið út í heim, til að afla þekkingar og auka verðmætin.

Höfundur er framkvæmdastjóri About Fish.

Höf.: Kristin Hjálmarsson