Umhverfisverkfræðingur Rosa Garcia Pineiro er framkvæmdastjóri umhverfis-, heilbrigðis- og öryggismála frumframleiðslu Alcoa í Evrópu.
Umhverfisverkfræðingur Rosa Garcia Pineiro er framkvæmdastjóri umhverfis-, heilbrigðis- og öryggismála frumframleiðslu Alcoa í Evrópu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is Álið er umhverfisvænt þegar allt ferlið er skoðað frá upphafi til enda, segir Rosa Garcia Pineiro sem er iðnaðarverkfræðingur að mennt og er með meistarapróf í umhverfisverkfræði en hefur sl.

Viðtal

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

Álið er umhverfisvænt þegar allt ferlið er skoðað frá upphafi til enda, segir Rosa Garcia Pineiro sem er iðnaðarverkfræðingur að mennt og er með meistarapróf í umhverfisverkfræði en hefur sl. þrettán ár unnið hjá Alcoa sem á og rekur Fjarðaál á Austurlandi.

Allan tímann hjá Alcoa hefur hún unnið í deildum sem hafa með umhverfismál og einnig heilbrigðis- og öryggismál að gera. Aðspurð hvort hún sjái enga mótsögn í því að vinna hjá álframleiðanda, en framleiðsla áls er í eðli sínu alltaf mengandi þótt mismikið sé, og vinna að umhverfismálum hjá slíku fyrirtæki segir hún að svo sé ekki. „Það er af því að þú lítur aðeins á framleiðsluferlið. Ef þú horfir á allan líftíma álsins þá er það einmitt umhverfisvænt. Þegar búið er að nota álið er mest af því endurunnið. Af öllu því áli sem hefur verið framleitt frá því að það var fyrst búið til árið 1888 hafa 75% af því verið endurunnin eða eru enn í notkun.

Svo má ekki gleyma því að athuga hvar í ferlinu mesta mengunin kemur. Ef við skoðum kókdós sem er framleidd úr áli, þá er framleiðsla álsins eitt stig, síðan er varan búin til og síðan er hún flutt á milli staða. Ein mesta mengunin er í bílunum sem flytja vörurnar. En sú mesta kemur frá kæliskápunum sem eru notaðir til að halda kókdósinni kaldri.

Varðandi bílana, þá er það krafa ríkisstjórna sem láta sig umhverfismál varða að ál sé sett í meira mæli í bíla því það gerir þá léttari og minnkar bensíneyðslu og mengun af þeirra völdum. Það er miklu meiri mengun af bílum í dag heldur en iðnaðinum.“

Aðspurð hvort barnafólk, hvort sem það er umhverfisvænt eða ekki, muni ekki frekar kjósa stál í bíla sína en ál, af því að það hugsar ekki um umhverfið þegar það veltir fyrir sér öryggi barnanna, segir hún að svo sé ekki. „Í dýrari bílunum er efnablanda áls sem er jafn sterk og stál. Dýrari bílar eru því jafn sterkbyggðir og þeir væru úr stáli en eru jafnframt léttari vegna álsins.

Ál er orðið gríðarlega vinsælt í byggingum, um 40% af framleiddu áli fara í byggingariðnaðinn í dag, og er nú til í útgáfum sem beinlínis hreinsa loftið í nálægð við byggingarnar. Þessi gerð áls kom á markað í fyrra og vonumst við til vinsælda hennar í gerð bygginga í borgum,“ segir Pineiro

ÖRYGGIS- OG UMHVERFISMÁL

Alcoa á Austurlandi

Pineiro er nýkomin úr heimsókn í Fjarðaál þar sem hún skoðaði álverksmiðju Alcoa. Hún er ákaflega ánægð með hvernig hefur til tekist og segir að öllum hæstu viðmiðum sé mætt hvað varða öryggis- og umhverfismál.

„Ekki einn einasti dagur á síðasta ári tapaðist vegna vinnuslyss. Öryggismálin eru í lagi.

En það gladdi mig ekki minna að sjá hve nærsamfélagið er jákvætt gagnvart starfseminni og hvað það er mikil samvinna við það. 76% af starfsmönnum Fjarðaáls hafa unnið í sjálfboðavinnu í nærsamfélaginu. Enda eru samkvæmt könnunum 82,3% fólksins á þessum hluta Austurlands á því að framlag Fjarðaáls til samfélagsins sé mikið.“ En sú könnun ku hafa náð til þess hluta Austurlands sem liggur frá Stöðvarfirði til suðurs og að Borgarfirði eystri til norðurs.

Alcoa
» Fyrirtækið var stofnað 1888, árið sem álið var uppgötvað.
» Stærsti álframleiðandi í heiminum.
» 61.000 manns vinna hjá Alcoa, þar af 17.000 manns í Evrópu.
» Árleg sala fyrirtækisins er upp á 25 milljarða dollara.
» Samkvæmt mannfjöldaspám munu jarðarbúar fara úr 6,6 milljörðum og upp í 9,1 milljarð árið 2050. Alcoa telur að ál muni leika stórt hlutverk í að takmarka mengunaráhrif af svo mikilli fólksfjölgun.