Þremur og hálfu ári eftir fall bankanna blasir enn við slæm afkoma heimilanna í landinu. Í vikunni birti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) skýrslu um skuldastöðu heimila almennt þar sem fram kemur að miklar skuldir heimila tefji almennan efnahagsbata – og er Ísland nefnt sérstaklega í því sambandi. Þá sýnir nýbirt skýrsla Seðlabanka Íslands að skuldastaða fjölmargra íslenskra heimila er slæm og að þau úrræði sem þegar hefur verið gripið til duga ekki sem skyldi. Ég vakti athygli á því um miðjan mars að þau úrræði sem boðið hefði verði upp á væru ómarkviss og í sumum tilfellum ónothæf.
Vandinn er mestur hjá ungu barnafólki, kynslóðinni milli þrítugs og fertugs sem keypti fasteignir á bólutímabilinu. Við verðum að ná til þessa fólks og hjálpa því – þetta er sú kynslóð sem mun bera uppi landið í framtíðinni og hún má ekki fara burt. Því miður hafa þó allt of margir valið það að fara. Það er mikið áhyggjuefni fyrir Ísland ef ungt fólk telur framtíð sína frekar liggja í útlöndum.
Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar
Það er óviðunandi að fjöldi heimila sé enn í eftirköstum falls bankanna og í endalausum deilum við lánastofnanir. Við megum ekki búa til samfélag þar sem slíkt er eðlilegur hlutur. Þvert á móti verðum við að haga kerfinu þannig að fólk vilji standa í skilum – vilji fjárfesta í húsnæði og sjái hag sínum best borgið í eigin húsnæði. Verði áframhald á þessum vanda heimilanna er ljóst að skuldastaða heimilanna verður að sjálfstæðu efnahagslegu vandamáli rétt eins og AGS hefur nú bent á.Ofan á greiðsluvandann bætist hrikaleg skattastefna ríkisstjórnarinnar. Veskið verður sífellt þynnra og langar vinnustundir gagnast ríkisféhirði betur en fólkinu í landinu. Það er hins vegar umhugsunarefni fyrir fjármálaráðherrann að þessi skattpíningarstefna skilar sér ekki í betri hag ríkissjóðs – hallinn er viðvarandi og nú eru teikn á lofti um að hann sé að stóraukast og fara úr böndunum – þvert á það sem haldið hefur verið fram. Það er ekki furða að ríkisstjórnin skuli njóta lítils trausts í skoðanakönnunum. Samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Capacent hefur fylgið hrunið utan af stjórninni. Ástæðan fyrir því er einföld; þessi ríkisstjórn er ekki fær um að forgangsraða verkefnum í þágu heimila og fyrirtækja.
Skiptum um kúrs
Hér verður að skipta alveg um kúrs. Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt þetta kjörtímabil lagt fram efnahagstillögur sem miða að því að fjölga krónunum í veskjum landsmanna.Það verður að lækka skattana hér tafarlaust. Slík aðgerð kemur heimilunum strax til góða. Og það verður að lyfta gjaldeyrishöftunum – við getum ekki búið hér framtíðarfyrirkomulag á grundvelli hafta sem þarf stöðugt að herða.
Það er grundvallarverkefni allra stjórnmálamanna að auka hagsæld heimilanna. Allt annað má bíða. Við þurfum að fjárfesta í ungu kynslóðinni sem mun erfa landið. Sú fjárfesting mun skila sér margfalt til baka. Við þurfum að gefa fólki von um að hagur þess fari batnandi. Ef ekkert verður að gert munu Seðlabankinn og AGS birta sömu skýrslur eftir ár og aftur eftir tvö ár. Við þurfum að lækka hér skatta og álögur og við þurfum að búa þannig í haginn að fólk sjái hag sínum betur borgið í því að búa áfram á Íslandi. Af hverju vill ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, hin svokallaða norræna velferðarstjórn, ekki taka á þessum vanda?
Höfundur er þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins.