Ríkisstjórnin sýndi ótrúlegt ábyrgðarleysi með því að henda fram hálfunnum og vanhugsuðum frumvörpum um stjórn fiskveiða. Aðrir hafa reynt að bæta úr með því að leggja mat á áhrifin af ósköpunum og fengið fyrir skammir og aðdróttanir frá stjórnvöldum.
Þetta mat ábyrgra aðila hefur hins vegar verið afar mikilvægt til að draga fram hættuna sem frumvörpin fela í sér. Í blaðinu Fréttum, sem gefið er út í Vestmannaeyjum, var til dæmis í vikunni farið yfir þessi mál í athyglisverðri samantekt. Þar er útskýrt hvílíkt ofmat er á ferðinni á því hverju veiðileyfagjaldið getur skilað ef litið er til nokkurra þátta.
Þar vegur þyngst að í frumvörpunum sé ekki gert ráð fyrir kostnaði við að viðhalda og endurnýja skipakost og annan búnað, en greinin hafi árið 2010 afskrifað 12 milljarða króna. Sé tekið tillit til þessa þáttar lækki veiðileyfagjaldið um 9 milljarða króna. Ýmiskonar misræmi, grófar og rangar forsendur ofmeti veiðigjaldið um 7-10 milljarða króna og of lág ávöxtunarkrafa valdi ofmati upp á 7 milljarða króna.
Fleira kemur til en ljóst er að forsendur frumvarpanna fela í sér gríðarlegar reikningsskekkjur. Þessi mistök eru afleiðing pukursins sem viðhaft var við vinnslu frumvarpanna í bland við óskiljanlega andúð á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar.