Ráðherrar Stjórn Geirs H. Haarde tók við 2007. Í henni sátu m.a. Einar K. Guðfinnsson og Jóhanna Sigurðardóttir.
Ráðherrar Stjórn Geirs H. Haarde tók við 2007. Í henni sátu m.a. Einar K. Guðfinnsson og Jóhanna Sigurðardóttir. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is „Þetta var rætt í ríkisstjórn þó svo að formleg ríkisstjórnarsamþykkt væri ekki gerð um málið.

Viðtal

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

„Þetta var rætt í ríkisstjórn þó svo að formleg ríkisstjórnarsamþykkt væri ekki gerð um málið. Auk þess sagði ég það margoft á opinberum vettvangi að þeir sem þyrftu að sæta skertum þorskkvóta myndu njóta aukningarinnar þegar til hennar kæmi,“ segir Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Einar stóð frammi fyrir því sem sjávarútvegsráðherra vorið 2007 að þurfa að skerða þorskkvóta verulega. „Menn hefðu ekki getað tekið á sig þessar skerðingar ef þeir hefðu ekki getað vænst þess að njóta aukningarinnar þegar hún kæmi. Slíkt var auðvitað alger forsenda í þessari stöðu.“

Einar fagnar þeim árangri sem náðst hefur í uppbyggingu þorskstofnsins, en Hafrannsóknastofnun greindi frá því í fyrradag að stofnvísitala þorsks hafi hækkað fimmta árið í röð og 2011-árgangurinn væri meðal stærstu árganga frá 1985.

Gríðarleg breyting

„Þetta eru mjög ánægjuleg tíðindi og staðfesta vísbendingar sem við höfum heyrt frá sjómönnum og hefur komið fram í fyrri mælingum Hafrannsóknastofnunar að þorskstofninn er í miklum vexti.,“ segir Einar. „Þetta er gríðarleg breyting frá þeirri stöðu sem ég stóð frammi fyrir sumarið 2007, fyrir aðeins tæplega fimm árum. Þá var tillaga Hafrannsóknastofnunar sú að þorskaflinn ætti að vera 130 þúsund tonn, en nú eru menn að tala um að hann verði um 200 þúsund tonn.

Það var ekki nóg með það heldur var það líka mat Hafrannsóknastofnunar að ef ekki yrði gripið til þessara aðgerða mætti vænta þess að miðað við ráðgjöf stofnunarinnar ætti kvótinn að vera 114 þúsund tonn ári síðar. Við erum því að tala um að aflinn geti tæplega tvöfaldast frá þeirri stöðu sem við vorum að glíma við. Auðvitað fagna allir þessum árangri.

Það sem er hins vegar alvarlegast í þessu er að núna er ekki gert ráð fyrir að þeir sem tóku á sig skerðinguna njóti aukningarinnar, nema að hluta, þegar hún loksins kemur. Þessi þróun byrjaði því miður eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum og enn á að bæta í.

Það er líka mjög alvarlegt út frá sjónarhóli þeirra sem vilja ganga varlega um auðlindina og ég hefði haldið að þeir sem tala fyrir grænum viðhorfum eins og núverandi ríkisstjórnarflokkar gera, ættu að skilja það. Það er einfaldlega þannig að til þess að menn hafi hagsmuni af því að ganga vel um auðlindina verða menn líka aða fá að njóta þess þegar betur árar. Með því frumvarpi sem nú liggur fyrir í sjávarútvegsmálum er klippt á þann hvata sem mun þá stuðla að verri umgengni um auðlindina.“

Fráleit stefna

Einar bendir á að í þeim niðurstöðum sem Hafrannsóknastofnun kynnti í vikunni horfði ekki eins vel með til dæmis ýsu og steinbít. „Enginn talar um annað en að þeir sem hafa aflaheimildirnar í þessum tegundum taki á sig skerðinguna. Þannig að stefnan virðist vera sú að þeir sem hafa kvótana taki alltaf á sig skerðingarnar, en fái ekki að njóta aukningarinnar,“ segir Einar.

„Það er auðvitað fráleitt og algerlega úr takti við það sem ég boðaði sem sjávarútvegsráðherra í samstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þegar ákvörðun var tekin um að skera niður og var auðvitað forsendan fyrir því að hægt var að fara í þessar aðgerðir að þeir sem tækju á sig skerðingarnar fengju líka aukninguna.“

Óvarlega talað

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um þorskafla á næsta fiskveiðiári er væntanleg í byrjun júní og má vænta aukningar frá núverandi aflamarki sem er 177 þúsund tonn í þorski. Í fréttum RÚV í fyrrakvöld sagði Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra að nýjar upplýsingar bentu til að hægt yrði að auka kvótann í 200 þúsund tonn.

„Mér finnst að þær upplýsingar sem liggja fyrir frá Hafrannsóknastofnun þess eðlis að ekki sé hægt að reikna út upp á kíló eða gramm hver verði líklegur kvóti á næsta fiskveiðiári,“ segir Einar. „Þess vegna finnst mér sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafa talað mjög óvarlega um mögulega tekjuaukningu áður en endanleg ráðgjöf liggur fyrir.

Ég vek líka athygli á því að í nýju fiskveiðistjórnarfrumvarpi er þegar búið að reikna inn aukningu í þorskkvóta og það var gert áður en þessar upplýsingar komu fram og löngu áður en hin endanlega ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar liggur fyrir. Þannig að mér finnst að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eigi ekki að hreykja sér af einhverri staðfestu varðandi nýtingu þorskstofnsins eins og hann gerði í fjölmiðlum í vikunni.“

Í fréttum Stöðvar 2 í fyrrakvöld fagnaði Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra góðum árangri í uppbyggingu þorskstofnsins. Ráðherra sagði m.a.: „Þetta er svo góð frétt að ég held að enginn geti, hversu fúll sem hann er, snúið út úr henni.“

Einar K. Guðfinnsson sagðist ekki gera sér grein fyrir til hverra ráðherra væri að vísa. „Ég geri ekki ráð fyrir að hann hafi átt við hinn glaðlega forsætisráðherra,“ sagði Einar.

EITT FYRSTA VERKEFNIÐ VAR AÐ TAKAST Á VIÐ ÓTÍÐINDI UM SLÆMT ÁSTAND ÞORSKSTOFNSINS

„Fái notið ávaxtanna þegar stofninn styrkist“

Í áramótagrein í Morgunblaðinu 31. desember 2007 fjallaði Geir H. Haarde forsætisráðherra um niðurskurð í aflaheimildum í þorski og sagði meðal annars:

„Eitt fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar var að takast á við þau ótíðindi sem bárust snemma sumars um slæmt ástand þorskstofnsins. Hafrannsóknastofnun lagði til verulegan niðurskurð á þorskaflanum og öllum var ljóst að áhrifin yrðu gríðarlega mikil, einkum fyrir útgerðir og einstök byggðarlög.

Sjávarútvegsráðherra tók þá ákvörðun, með fullum stuðningi ríkisstjórnarinnar, að fara að tillögum vísindamannanna og hljóta allir að vona að hún leiði til hraðari uppbyggingar þorskstofnsins en ella hefði verið. Samhliða niðurskurðinum ákvað ríkisstjórnin að ráðast í umfangsmiklar mótvægisaðgerðir til þess að draga úr búsifjum af hans völdum. Mestu skiptir hins vegar að þeir sem nú taka á sig aflaskerðingu fái notið ávaxtanna þegar stofninn styrkist á nýjan leik.“

Í samtali við Morgunblaðið í gær lýsti Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, áhyggjum sínum af áformum ríkisstjórnarinnar við fiskveiðistjórnun og sagði meðal annars: „Áform stjórnvalda um að færa aflaheimildir frá þeim sem tóku á sig skerðingar þegar nauðsyn bar til og færa núna öðrum varpa hins vegar skugga á þessar góðu fréttir. Það má einfaldlega ekki gerast og við leggjum ofuráherslu á að þeir fái að njóta sem tóku á sig skerðingarnar.

Það er bæði sanngjarnt og eðlilegt að útgerðir, sjómenn og fiskvinnslufólk um allt land sem tóku á sig skerðingar og það mikla tekjutap sem þeim fylgdi fái einnig að njóta að fullu þess árangurs sem aðgerðirnar skila í formi aukins aflamarks.“

ÚTREIKNINGAR HAGSTOFU

Ekki skattagrunnur

Atvinnuveganefnd Alþingis fjallaði um frumvörp sjávarútvegsráðherra um fiskveiðistjórnun og veiðigjöld á fundi sínum í gær. Meðal annars mættu fulltrúar Hagstofunnar á fundinn og gerðu grein fyrir útreikningum sínum um sjávarútveg, að sögn Einars K. Guðfinnssonar.

„Það er ljóst mál að þeir útreikningar sem Hagstofan hefur unnið í gegnum tíðina um stöðu sjávarútvegs og hafa mjög mikla þýðingu til að varpa ljósi á stöðu greinarinnar geta aldrei verið grundvöllur fyrir skattlagningu. Þeir eru einfaldlega unnir í allt öðrum tilgangi,“ segir Einar ennfremur.

Undirbúa umsagnir um frumvörpin

Breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og frumvarp um veiðigjöld snerta starf Fiskistofu á margan hátt. Reikna má með fjölgun starfa hjá stofnuninni en þar starfa nú 75 manns.

Starfsmenn Fiskistofu eru þessa dagana að fara yfir frumvörpin og verður umsögn send atvinnuveganefnd Alþingis fyrir lok næstu viku. Eyþór Björnsson fiskistofustjóri segir að einkum sé horft til ýmissa framkvæmdaatriða sem muni breytast verði frumvörpin að lögum. Fiskistofu er áfram ætlað að innheimta veiðigjöld, en ýmsar forsendur þeirra breytast samkvæmt frumvörpunum.

Þá er gert ráð fyrir að hefja á ný starfsemi kvótaþings í umsjón Fiskistofu. Sérstöku gjaldi vegna kvótaþingsins er ætlað að standa undir þeirri starfsemi.

Hvati til að ganga vel um auðlindina

Hjá Hafrannsóknastofnun er eins og á Fiskistofu unnið að umsögn um fiskveiðistjórnarfrumvörpin. Jóhann Sigurjónsson forstjóri segir að í nýju frumvarpi sé Hafrannsóknastofnuninni ætlað sama hlutverk og í núgildandi lögum.

Stofnunin hafi því litlar athugasemdir fram að færa en á síðasta ári gaf stofnunin umsögn um frumvarpið sem þá lá fyrir þinginu þar sem áherslan hafi verið á að við fiskveiðistjórnun þurfi að vera hvati til að ganga vel um auðlindina, m.a. að fylgt sé veiðiráðgjöf um sjálfbærar veiðar. aij@mbl.is