Mark Andri Mikaelsson skorar fjórða mark Íslands án þess að markvörðurinn og tveir varnarmenn Serba nái að stöðva hann. Frábær kafli hjá íslenska liðinu þar sem það breytti stöðunni úr 0:2 í 4:2 á skömmum tíma.
Mark Andri Mikaelsson skorar fjórða mark Íslands án þess að markvörðurinn og tveir varnarmenn Serba nái að stöðva hann. Frábær kafli hjá íslenska liðinu þar sem það breytti stöðunni úr 0:2 í 4:2 á skömmum tíma. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Laugardal Kristján Jónsson kris@mbl.is Íslenska landsliðið í íshokkí tók enn eitt skrefið fram á við á ísnum í gærkvöldi þegar liðið sigraði Serbíu í fyrsta skipti í A-landsleik karla, 5:3. Ísland hefur þá unnið báða sína leiki í A-riðli 2.

Í Laugardal

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Íslenska landsliðið í íshokkí tók enn eitt skrefið fram á við á ísnum í gærkvöldi þegar liðið sigraði Serbíu í fyrsta skipti í A-landsleik karla, 5:3. Ísland hefur þá unnið báða sína leiki í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins í Skautahöllinni í Laugardal. Ísland vann Nýja-Sjáland 4:0 í fyrsta leiknum á fimmtudagskvöldið og bætti um betur í gærkvöldi en á sunnudagskvöldið bíður gríðarlega erfiður andstæðingur. Þá mætir Ísland liði Eistlands sem einnig hefur unnið báða leiki sína til þessa.

„Þetta var frábært. Að ná að afreka eitthvað í fyrsta skipti er alltaf sérstakt og þessi sigur var mjög sérstakur. Ég er ánægður með stuðninginn sem við fengum en ég held að hann geti orðið meiri og háværari. Ég er ekki viss um að íslenska íshokkífjölskyldan geri sér enn almennilega grein fyrir því hversu gott íslenska liðið getur orðið. Við höfum ekki ennþá séð strákana sýna sitt allra besta,“ sagði hinn danski landsliðsþjálfari Íslands, Olaf Eller, sem nú hefur stjórnað landsliðinu í fimm sigurleikjum í röð á HM.

Eller notaði fleiri leikmenn

Lærisveinar Ellers sýndu gríðarlegan andlegan styrk á móti Serbunum því þeir lentu 0:2 undir eftir aðeins sjö mínútna leik. Hvað fór þá í gegnum huga þjálfarans? „Aðallega að fá strákana til að halda áfram á sömu nótum og þeir höfðu byrjað leikinn vegna þess að á fyrstu sjö mínútunum vorum við nokkrum sinnum mjög hættulegir. Aðalmálið var því að missa ekki móðinn af því að við höfðum fengið á okkur tvö heimskuleg mörk,“ sagði Eller ennfremur þegar Morgunblaðið náði tali af honum.

Eller hafði kjark til að spila á fleiri leikmönnum en Serbarnir og það gekk upp því varnarmenn Serba urðu mjög þreyttir þegar á leið. Auk þess tókst þeim Jónasi Breka Magnússyni og Brynjari Þórðarsyni að gera Serbana brjálaða sem varð til þess að þeir misstu einbeitinguna og létu reka sig ítrekað út af. Íslendingar nýttu tækifærið og skoruðu fjögur mörk þegar Serbar voru að taka út refsingu.

Serbía var í 1. deild 2010

Merkilegt er til þess að hugsa að lið Serbíu lék í 1. deild fyrir aðeins tveimur árum en Morgunblaðið benti þó á það síðastliðinn fimmtudag að Ísland gæti unnið Serbíu á góðum degi. Segja má að þetta sé stærsti sigur íslenska liðsins frá því að liðið vann Kína í fyrsta skipti á HM í Eistlandi fyrir tveimur árum. Íslenska liðið er á stöðugri uppleið eins og blaðið hefur bent á síðustu tvö árin og liðið er auk þess með fleiri unga leikmenn en almennt gerist í mótinu.

Einstaklingsframtak Emils

Snillingurinn Emil Alengård var valinn maður leiksins hjá íslenska liðinu en hann skoraði mark og lagði upp annað. Emil kom Íslandi yfir, 3:2, með glæsilegu einstaklingsframtaki og sýndi þar hvað í honum býr. Markvörðurinn Dennis Hedström varði frábærlega á köflum og sannaði mikilvægi sitt fyrir liðið. Eitt af því sem skemmtilegt er að sjá í íslenska liðinu er hvernig ungir leikmenn fá stærra hlutverk í liðinu með hverju árinu sem líður. Má þar nefna Róbert Frey Pálsson sem leikið hefur mjög vel í fyrstu tveimur leikjunum og þá Pétur Maack og Andra Mikaelsson. Þeir skiluðu báðir marki og stoðsendingu í gærkvöldi.

Ísland – Serbía 5:3

Skautahöllin í Laugardal, heimsmeistaramót karla í íshokkí, 2. deild, A-riðill, föstudag 13. apríl 2012.

0:1 Pavel Popravka 3.

0:2 Nemanja Jankovic 7.

1:2 Birkir Árnason 9. (Emil Alengård og Ingvar Jónsson)

2:2 Pétur Maack 17. (Jón B. Gíslason)

3:2 Emil Alengaard 32. (Snorri Sigurbjörnsson)

4:2 Andri Mikaelsson 36. (Matthías Máni Sigurðarson)

5:2 Jón B. Gíslason 40. (Andri Mikaelsson)

5:3 Nemanja Jankovic 50.

Maður leiksins: Emil Alengård.

Brottvísanir : Ísland 16 mínútur, Serbía 22 mínútur.

Markskot : Ísland 24, Serbía 35.

Dómari : Michael Hicks, Bretlandi.

Áhorfendur : 850.