Kennari Zsuzsanna Koszegi undi sér vel a´ ferðum sínum um Ísland.
Kennari Zsuzsanna Koszegi undi sér vel a´ ferðum sínum um Ísland. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hér á landi var nýverið staddur ungverski hugleiðslukennarinn Zsuzsanna Koszegi sem kenndi alþjóðlegum hópi hugleiðslu. Zsuzsanna segir alla geta tileinkað sér hugleiðslu og hún henti Íslendingum vel því þeir séu sjálfstæðir og opnir.

Hér á landi var nýverið staddur ungverski hugleiðslukennarinn Zsuzsanna Koszegi sem kenndi alþjóðlegum hópi hugleiðslu. Zsuzsanna segir alla geta tileinkað sér hugleiðslu og hún henti Íslendingum vel því þeir séu sjálfstæðir og opnir. Hún segir náttúru landsins henta vel fyrir byrjendur en þegar hugurinn hafi verið beislaður sé vel hægt að hugleiða í miðri umferðarteppu í stórborg.

María Ólafsdóttir

maria@mbl.is

Alþjóðlegur hugleiðsluhópur dvaldi hér á Íslandi í þrjá daga yfir páskana. Hópurinn dvaldi að Drangshlíð undir Eyjafjöllum og stundaði þar meðal annars hugleiðslu í hlöðunni, en á bænum er rekin ferðaþjónusta. Þátttakendur voru frá Danmörku, Þýskalandi, Slóavakíu og fleiri löndum en kennari hópsins var hin ungverska Zsuzsanna Koszegi sem ferðast hefur víða um heim og kennt hugleiðslu.

Trú án kenninga

„Ég lærði fræðin af kennara sem er lama og flytur þekkingu sína áfram til nemenda sinna. Þeir halda síðan af stað út í heiminn og breiða út boðskapinn. Enda myndi kennarinn aldrei ná að ferðast einn og sjálfur til þeirra rúmlega 600 landa sem hópurinn skiptist á að ferðast til. Ísland er nýr áfangastaður og virðist hæfa hugleiðslu mjög vel því fólk er mjög vingjarnlegt og opið. Ég myndi ekki segja að búddismi sé hefðbundin trúarbrögð því innan hans eru engar trúarkenningar og fólki er kennt að hamingjan sé hið innra í huga okkar. Að hugarfar okkar skapi heim okkar og til að breyta honum verðum við að breyta viðhorfi okkar. Þetta er því mjög praktískt í öllum aðstæðum í lífinu. Fólk er fært um mun meira en það telur sig vera. En það þarf að geta upplifað það og til þess er best að hugleiða. Í stað þess að hafa áhyggjur af því sem hefur verið og gæti orðið fæst maður við það sem er fyrir framan nefið á manni þessa stundina. Það er það besta og það sem maður getur gert best. Fortíðin er liðin hvort sem er og enginn getur séð fram í framtíðina en við höfum tækifæri til að vera hamingjusöm einmitt núna og með þetta vinnum við,“ segir Zsuzsanna.

Hentar öllum lífsstíl

Hún býr í Búdapest og sinnir þar starfi sínu auk þess að ferðast mikið, en ætlast er til að hugleiðslukennararnir vinni og taki þátt í daglegu amstri til að geta miðlað af reynslu sinni. Zsuzsanna segir að hún lifi sínu lífi en með því að vinna með hugann geti hún ætíð skapað sér umframtíma.

„Ég tel að hugleiðslan falli mjög vel að lífi fólks á 21. öldinni. Maður þarf ekki að tileinka sér sérstakan lífsstíl því hugleiðslunni má bæta við hvern þann lífsstíl sem þú hefur. Þú þarft ekki að snúa baki við því heldur frekar að gera það besta úr þínu daglega lífi. Annaðhvort er fólk stressað og hrætt eða hefur í huga sér hugmyndafræði um ýmiss konar möguleika í lífinu. Við viljum ýta undir þetta og aðstoða fólk við að skapa sér slíka möguleika. Stundum erum við stressuð yfir því sem þegar hefur gerst og skiptir ekki máli eða því sem gæti gerst. Við berum þennan þunga, ótta og byrði með okkur en hugleiðslan kennir okkur að vera sjálfstæð og samúðarfull. Það er að segja að skilja að allir vilji vera hamingjusamir þó þeir viti ekki hvernig þeir eigi að fara að því. Þetta krefst nokkuð mikillar þolinmæði,“ segir Zsuzsanna.

Zsuzsanna ferðast til Asíu einu sinni á ári og heimsækir þá búddismastaði á Indlandi og víðar. Hún segir námskeiðið hér hafa gengið vel og það hafi komið sér ánægjulega á óvart hve Íslendingar eru sjálfstæðir og opnir fyrir hugleiðsu. Hún segir að í bígerð sé að halda fleiri slík námskeið hér í framtíðinni en í næstu viku mun pólskur hugleiðslukennari sjá um námskeið. Má nálgast nánari upplýsingar um það á vefsíðunni www.buddismi.is.

Frelsi í umferðarteppu

„Það er gott að byrja að hugleiða á Íslandi því hér er mikil kyrrð og falleg náttúra. En á endanum þegar þú vinnur með hugann þá getur þú öðlast nákvæmlega sama frelsi í New York í miðri umferðarteppu,“ segir Zsuzsanna.

ALÞJÓÐLEG SAMTÖK

Í yfir 600 löndum

Í hinum alþjóðlega hópi voru Íslendingar sem hittast reglulega til að hugleiða. Er íslenski hópurinn hluti af svokölluðu Diamond Way Buddhism, alþjóðlegum samtökum sem halda úti starfsstöðvum í meira en 600 löndum. Lama samtakanna er Oly Nydahl sem helgað hefur sig búddismanum í 40 ár og kynnt hann þúsundum nemenda víða um heim.